Þénar mest 400 krónur á dag
Sadije er móðir þriggja barna í smábænum Iteya í Eþíópíu og býr hún ásamt þeim og eiginmanni sínum í um það bil tíu fermetra húsi. Fjölskyldan lifir við sárafátækt og er ein af þeim 566 fjölskyldum sem njóta aðstoðar SOS Barnaþorpanna á Íslandi í gegnum Fjölskyldueflingu SOS.
Áttum ekki fyrir mat
„Við áttum í rauninni ekkert til að lifa á áður en hjálpin barst frá ykkur. Það var engin fyrirvinna og við áttum ekki fyrir mat. Svo útveguðuð þið mér korn sem ég get selt á markaðnum og núna er ég að fá tekjur svo ég get gefið börnunum að borða,“ sagði Sadije í samtali við Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúa SOS sem heimsótti Iteya á dögunum.
400 krónur á dag
Sadije þénar sem nemur 400 krónum á „góðum degi“ af sölu á korni. Þegar okkur bar að garði lá tveggja mánaða gömul dóttir hennar á skítugri dýnu á gólfinu inni í 10 fermetra húsinu. Í gegnum Fjölskyldueflinguna gat Sadije tekið lán á lágum vöxtum sem gerði henni kleift að kaupa meira korn til að selja á markaðnum. Nú þegar tekjur eru farnar að koma til heimilisins getur Sadije ekki aðeins brauðfætt fjölskylduna heldur líka sent börnin í skólann, sem hún hafði áður ekki efni á og hún sér fram á bjartari framtíð.
„Við eygjum von núna. Að hafa vinnu og innkomu lætur hlutina ganga upp. Við erum ykkur svo þakklát. Vonandi haldið þið áfram að hjálpa okkur.“
Barnafjölskyldur í sárafátækt
Fjölskylduefling SOS felst í að styðja barnafjölskyldur í sárafátækt til sjálfbærni, m.a. með bættri heilbrigðisþjónustu, stuðningi við menntun, uppeldisþjálfun, betra aðgengi að vatni, fjármálaráðgjöf og aðgengi að lánum á lágum vöxtum svo dæmi séu tekin. Lánin eru veitt fjölskyldunum til að efla eigin atvinnurekstur svo sem til kaupa á búnaði og hráefni til framleiðslu á matvöru til sölu.
Verkefni okkar í Eþíópíu hófst 1. janúar 2018 og stendur yfir í þrjú ár. Umræddar fjöskyldur eru í smábænum Iteya og þorpinu Tero Moye sem er í 20 km fjarlægð. Verkefnið er kennt við eldfjallið Tullumoye sem þýðir „Fjallsgígur“ á íslensku og er í nágrenni Tero Moye.
Sjá líka: 7 manna fjölskylda í 10 fm íbúð
SOS fjölskylduvinur
SOS fjölskylduvinur
SOS-fjölskylduvinir styrkja fjölskyldueflingu SOS. Sem SOS-fjölskylduvinur kemurðu í veg fyrir að börn verði vanrækt og yfirgefin. Í fjölskyldueflingu SOS tökum við fyrstu skrefin með fjölskyldum út úr sárafátækt svo þær getið staðið á eigin fótum og veitt börnunum bjarta framtíð. Þú ákveður styrktarupphæðina og færð reglulega uppýsingapóst um verkefnin sem við fjármögnum.