12 ára stúlka gekk systkinum sínum í móðurstað
Nduku og SOS mamma hennar, Waithera.
Árið 2016 fór að kvisast út í strjálbýlu þorpi í austur Kenía að þrjú ung systkini, þriggja til tólf ára, væru ein á báti. Yfirgefin og án umönnunar á heimili sínu. Yngsta systkinið, Ndaku litla sem var aðeins þriggja ára, hafði þá reglulega bankað upp á hjá nágrönnum til að biðja um mat og nokkrum sinnum sást til hennar borða mold.
Þegar betur var að gáð kom í ljós að foreldrar systkinanna höfðu dáið níu mánuðum áður. Mwikali, 12 ára stóra systir Ndaku, hafði þá gengið yngri bróður sínum Kioko og litlu systur í móðurstað og gerði hún sitt besta til að sjá fyrir þeim öllum. Ndaku var oftar en ekki aðframkomin af hungri og oft skipti ekki máli hvort það var matarkyns eða ekki sem hún lagði sér til munns.
Þetta er því miður mjög algengt í Kenía þar sem tölur yfirvalda benda til að tugþúsundir barna í landinu búa á heimilum sem eru í umsjá foreldralausra barna.
Nærri dauða en lífi af völdum vannæringar
Yfirvöldum var gert viðvart um aðstæður systkinanna sem var útvegað heimili í SOS barnaþorpinu í Buruburu sem er í höfuðborginni Naíróbí. Þegar þangað var komið var Nduku illa haldin af vannæringu. „Ég óttaðist að hún myndi ekki lifa þetta af þegar ég sá hana fyrst," segir Waithera, SOS móðir Ndaku sem gekk systkinunum öllum í móðurstað og hefur annast þau frá komu þeirra í barnaþorpið fyrir fjórum árum.
34 Íslendingar eru SOS-foreldrar barna í þessu barnaþorpi í Naíróbí.
Systkinin ásamt SOS-mömmu sinni Waithera. Kioko er lengst til vinstri og stóra systir Mwikali er lengst til hægri, í bleikum bol.
Fórum oft svöng að sofa
Mwikali sem er nú orðin 16 ára lýsir erfiðum aðstæðum þeirra systkina eftir að foreldrar þeirra dóu. „Ég varð eiginlega mamma þeirra. Ég sótti vatn og eldaði mat. Skólafötin okkar voru öll rifin og tætt svo ég sauma fyrir og laga þau reglulega svo við gætum gengið í þeim. Ég skrópaði mikið í skólanum svo ég gæti unnið fyrir okkur en við fórum mjög oft svöng að sofa."
Þurfti að læra að verða barn aftur
Systkinin búa nú öll saman hjá SOS móður sinni Waithera í barnaþorpinu og þau eru mjög náin. Mwikali var orðin svo vön að hugsa um yngri systkini sín að hún hagaði sér til að byrja með eins og móður þeirra eftir að þau komu í barnaþorpið. En Waithera minnti hana reglulega á að nú væru þau systkinin komin í öruggt umhverfi og hún gæti því leyft sér að vera aftur frjáls eins og barn. Mwikali var eftir allt saman aðeins 12 ára á þessum tíma og þurfti að læra að verða barn aftur.
„Ég hélt í fyrsta sinn upp á afmælið mitt þegar ég varð 13 ára í barnaþorpinu. Ég borðaði köku umvafin fjölskyldu og vinum sem þykir raunverulega vænt um mig," segir Mwikali.
Var lengi að jafna sig eftir raunirnar
Það tók Ndaku litlu nokkurn tíma að jafna sig eftir komuna í barnaþorpið og hún grét stjórnlaust þegar hún var skilin eftir ein. Waithera ákvað því að vera alltaf heima til að byrja með þegar litla stúlkan vaknaði og kom heim úr skólanum. „Ég fullvissaði hana um að ég yrði alltaf til staðar fyrir hana," segir Waithera.
Nú á ég góða mömmu
Nduku er nú orðin 8 ára og líður afar vel í barnaþorpinu. „Mér finnst gaman að leika við vini mína. Besta vinkona mín heitir Ruth. Við erum alltaf í eltinga- og feluleik. Ég á líka marga bræður og systur. Við borðum saman, lærum saman og gerum heimilisverkin saman. Ég elska fjölskylduna mína. Nú á ég góða mömmu sem er alltaf til staðar fyrir mig," segir Nduku og brosir út að eyrum.
*Nöfnum barnanna er breytt af persónuverndarástæðum.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.