15 ára kennir öðrum börnum stærðfræði í barnaþorpinu
Anna* er 15 ára og hefur aldrei þekkt kynforeldra sína. Stundum verður hún sorgmædd vegna þess en henni líður þó vel hjá fjölskyldunni sinni í SOS barnaþorpi í Mósambík þar sem hún hefur alist upp síðan hún var fjögurra ára. Anna er alger stærðfræðisnillingur og hefur tekið að sér að kenna öðrum börnum í barnaþorpinu stærðfræði. Kennarastarfið virðist því blasa við þessari snjöllu ungu stúlku áður en langt um líður.
Flakkaði milli fólks sem gat ekki séð fyrir henni
Anna missti báða foreldra sína þegar hún var þriggja ára og í eitt ár flakkaði hún milli fólks sem gat ekki séð fyrir henni. Fyrst bjó hún hjá ömmu sinni, þá nágranna og loks frænda. En skuldbingarnar sem því fylgja að ala upp lítið barn reyndust þeim öllum um of.
Árið 2012 þegar Anna var orðin fjögurra ára leitaði frændinn til SOS barnaþorpsins í borginni Chimoio og spurði hvort Anna gæti fengið heimili og fjölskyldu þar sem grunnþörfum hennar yrði mætt. Þangað flutti Anna ásamt eldri systur sinni og þar hafa þær búið síðan. Á þessum tíu árum hefur Anna alist upp hjá ástríkri fjölskyldu og er nú sjálfsörugg, félagslynd og útsjónarsöm ung stúlka.
Börnin sækja í stærðfræðikunnáttu Önnu
Helstu áhugamál Önnu eru að spila fótbolta, horfa á teiknimyndir, syngja og lesa sögur. „Mér finnst þó skemmtilegast að leysa stærðfræðiþrautir,“ segir Anna sem hin börnin í þorpinu eru strax farin að tala um sem kennara vegna stærðfræðikunnáttu hennar. Börn á forskólastigi eru farin að koma til Önnu og fá kennslu í stærðfræði á föstudögum og laugardögum þegar hún á lausan tíma.
„Ég veit að mörg börn eru ekki hrifin af stærðfræði. Þau hafa ákveðið að hún sé stórt skrímsli sem þau geta ekki skilið eða sigrast á. Ég vil hjálpa þeim að verða betri og leggja sterkan grunn þeirra svo þeim gangi vel þegar þau fara upp um bekki,“ segir Anna sem var í öðrum bekk þegar hún fékk þennan mikla áhuga á stærðfræði.
Gæðastundir við matseld með mömmu
Anna segir að hún hafi öðlast styrk sinn með ást og stuðningi sem hún fær hjá fjölskyldu sinni í barnaþorpinu. Uppáhaldsstundir Önnu eru þegar hún eldar um helgar með mömmu sinni sem hún segir vera miklar gæðastundir. Ekki síst þegar öll fjölskyldan borðar saman á kvöldin og um helgar. „Þessi litlu daglegu atriði hafa eflt tengslin okkar svo mikið, eins og að ræða saman um daginn okkar og svoleiðis. Mamma notar þessar stundir til að kenna okkur fjölskyldugildi.
Erfið tilfinning fylgist kærustu minningunni
En þó að Önnu líði vel í barnaþorpinu þá fylgir hennar kærustu minningu dálítið erfið tilfinning. „Það var þegar ég útskrifaðist úr leikskólanum og ég fékk sérstakt hrós fyrir að vera einn besti nemandinn. Ég á frábæra fjölskyldu hérna sem fagnaði öll með mér. En í hjarta mínu fann ég heita ósk um að kynforeldrar mínir hefðu séð mig á því augnabliki. Ég hefði svo innilega viljað kynnast þeim.“
Vernduð fyrir barnahjónaböndum og sér fram á bjarta framtíð
Í Mósambík er ein hæsta tíðni barnahjónabanda í heiminum. Nærri helmingur stúlkna á barnsaldri neyðist í hjónaband því foreldrar þeirra geta ekki séð fyrir þeim. Stór hluti stúlknanna hætta í skóla af þessum völdum. Í SOS barnaþorpinu sækja börnin námskeið um barnavernd og er Anna mjög meðvituð um réttindi sín. Hún skilur mjög vel af hverju börn eins og hún, sem áttu enga foreldra, þurfa umönnun og vernd. Önnu finnst hún vera lánsöm að hafa alist upp í barnaþorpinu.
„„Mér finnst ég vera vernduð fyrir öllu illu sem gerist hér í samfélaginu eins og barnahjónaböndum. Ég er ánægð með hvernig SOS Barnaþorpin taka á barnaverndarmálum. Hér erum við unglingarnir meðvitaðir um kynheilbrigði og leiðir til að forðast barnahjónabönd og sjúkdóma,“ segir Anna sem lítur björtum augum til framtíðar. Enda er hér á ferðinni snjöll stúlka sem verður vonandi orðin starfandi kennari áður en langt um líður.
*Nafni breytt til að vernda friðhelgi barnsins.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.