21 árs með 12 manns í vinnu
Asiya Saed ákvað að leita sér að vinnu eftir að hún lauk gagnfræðinámi í Sómalílandi fyrir fjórum árum en hún vissi ekkert hvert hún átti að snúa sér.
„Ég rakst allstaðar á veggi og fékkst við allskonar áskoranir. Ég komst að því að það vantaði t.d. alveg miðstöð sem hjálpar atvinnuleitendum að útbúa ferilsskrá og í raun alla tengingu atvinnuleitenda við vinnumarkaðinn,“ segir Asiya sem í framhaldinu sótti um að komast í atvinnueflingu SOS Barnaþorpanna, Next Economy.
Tókst í þriðju tilraun
Þetta gjörbreytti lífi Asiyu sem í dag er 21 árs eigandi fyrirtækis með 12 manns í vinnu. Hún safnaði fé með hópfjármögnun til að hefja rekstur og þrátt fyrir að hafa mistekist í fyrstu tvö skiptin gafst hún ekki upp. „Þá stofnaði ég 2DOON, atvinnumiðlun sem hefur þegar dregið úr atvinnuleysi. Við erum að hjálpa ungu fólki að gera atvinnuumsóknir og koma á tengslum við fyrirtæki. Ég er með 12 manns í vinnu og fyrirtækið er að skila hagnaði.“
Fjármagnað af SOS á Íslandi
SOS Barnaþorpin í Hollandi fjármögnuðu fyrsta stig Next Economy í Sómalíu og Sómalílandi en annað stigið er fjármagnað af SOS á Íslandi. Það hófst í byrjun árs 2019 og stendur yfir út árið 2021.
Utanríkisráðuneyti Íslands styrkir 80% verkefniskostnaðarins eða um 51,5 milljónir króna. Mótframlag SOS á Íslandi er 20% af kostnaðinum eða um 12,9 milljónir kr. Þeir sem greiða frjáls framlög til SOS á Íslandi eru þátttakendur í þessum hluta Next Economy í Sómalíu og Sómalílandi. Yfir 900 umsóknir bárust en 200 einstaklingar komust, jafnt strákar sem stúlkur.
Þriðjungur barna í sárafátækt
Þrátt fyrir uppgang í efnahag Afríku undanfarin 15 ár virðast atvinnutækifærin ekki rata í hendur stórs hluta 420 milljóna ungmenna álfunnar. Sómalska þjóðin er enn að ná sér á strik eftir áratuga ófrið og óstöðugleika og helmingur þjóðarinnar lifir undir fátæktarmörkum. Einn þriðji hluti barna í landinu býr við sárafátækt.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.