SOS sögur 18.maí 2023

Ætlaði í bifvélavirkjun en opnaði saumastofu

Ætlaði í bifvélavirkjun en opnaði saumastofu

Abdikadir Mohamed er 22 ára og flutti til Hargeisa, höfuðborgar Sómalilands, í leit að betra lífi. Hann kom fótgangandi 500 km leið úr sveitinni  til að elta draum sinn að læra bifvélavirkjun. Námið var hins vegar ekki í boði í landinu og þá voru góð ráð dýr.

Abdikadir fékk enga vinnu og langvarandi atvinnuleysi blasti við honum þar til hann heyrði af atvinnueflingu unga fólksins á vegum SOS Barnaþorpanna. Hann sótti námskeið í frumkvöðlafræði og lærði til klæðskera sem reyndist liggja vel fyrir honum.

Sjáðu myndband frá heimsókn okkar á saumastofuna og með viðtali við Abdikadir.

Svo er ég nokkuð fær í þessu

Abdikadir er harðduglegur og opnaði saumastofu sem gengur ljómandi vel. Á þeim örfáu mínútum sem undirritaður ræddi við Abdikadir inni á saumastofunni í vettvangsheimsókn í mars sl. komu þrír viðskiptavinir.

„Ég vinn frá morgni til kvölds og það er mikið að gera. Viðskiptavinirnir eru ánægðir því ég stend við mitt og er tilbúinn með fötin á uppgefnum tíma. Svo er ég nokkuð fær í þessu þó ég segi sjálfur frá þannig að fólkið kemur aftur,“ segir Abdikadir sem hefur ráðið tvo aðstoðarmenn.

Hann sér þetta þó ekki fyrir sér sem framtíðarstarf heldur skref í þá átt að láta drauminn rætast, safna sér pening fyrir námi í bifvélavirkjun og opna svo verkstæði.

Viðtal og myndir: Hans Steinar Bjarnason

Stoltið skein af Abdikadir þegar hann sagði starfsfólki SOS frá Íslandi sögu sína. Stoltið skein af Abdikadir þegar hann sagði starfsfólki SOS frá Íslandi sögu sína.

75% atvinnuleysi ungmenna

75% atvinnuleysi er meðal ungmenna undir þrítugu í Sómalíu þar sem ófriður hefur ríkt í mörg ár. Hryðjuverkahópar hafa lengi unnið gegn friði og öryggi og slíkir hópar reyna m.a. að höfða til atvinnulausra ungmenna.

Verkefnið The Next Economy, Atvinnuhjálp unga fólksins í Sómalíu og Sómalílandi, gengur út á að þjálfa ungt fólk svo það geti fengið vinnu eða stofnað eigin fyrirtæki. Verkefnið er fjármagnað af styrktaraðilum SOS á Íslandi og Utanríkisráðuneytinu.

Saumastofa Abdikadir er ekki íburðarmikil en þjónar mörgum. Saumastofa Abdikadir er ekki íburðarmikil en þjónar mörgum.
Stakt framlag

Gefa stakt framlag

Stakt framlag

Þú getur styrkt starf SOS Barnaþorpanna með frjálsum, stökum framlögum þegar þér hentar. Þannig tekur þú þátt í að skapa þann fjárhagslega grunn sem gerir samtökunum kleift að byggja ný barnaþorp, sinna uppbyggingu og halda úti umbótaverkefnum um heim allan. SOS Barnaþorpin á Íslandi fjármagna fjölmörg verkefni víða um heim með frjálsum framlögum - allt í þágu barna!

Styrkja