Ætlar að verða fræg fréttakona
Lúna er 17 ára og ólst upp í SOS barnaþorpinu í Esmeraldas í Ekvador. Henni var á dögunum launaður mikill dugnaður og velgengni í námi með skólastyrk í alþjóðlegum skóla í Kostaríka og hefur hún sett stefnuna á að verða fræg fréttakona.
Lúna var 8 ára þegar hún kom ásamt systur sinni og fjórum systursonum í barnaþorpið. Börnin voru ekki lengur örugg vegna fíkniefnaneyslu foreldranna og þær aðstæður áttu því miður ekki eftir að breytast. SOS leggur ríka áherslu á að börn fari aftur til foreldra þeirra sé þess nokkur kostur en þrátt fyrir mikla vinnu starfsfólks SOS við að aðstoða fjölskylduna þótti öruggast að börnin yrðu áfram í barnaþorpinu.
Var hrædd og spurði oft um mömmu
Lúna minnist þess að hafa verið hrædd fyrst eftir að hún kom í barnaþorpið og hún spurði sífellt um móður sína. En hún minnist þess líka að hafa fundið fyrir meira öryggi og segir að sér hafi gengið vel að aðlagast lífinu hjá SOS móður sinni, Danny.
„Mér fannst auðvelt að líða eins og heima hjá mér. Danny sýndi mér mikinn stuðning. Hún kenndi mér að taka ábyrgð og sýna öðrum virðingu. Ég fékk hlýju og umhyggju hjá henni og hún fór með mig á staði sem ég hafði aldrei komið á áður, eins og í bíó og í sund.“
Dugnaðurinn skilaði skólastyrk
Í öruggu og alúðlegu umhverfi barnaþorpsins hefur Lúna notið æskunnar og dafnað vel. Hún er opin, mannblendin, ávallt brosandi og tekur virkan þátt í öllum athöfnum í barnaþorpinu. Hún er dugnaðarforkur og gengur svo vel í námi að hún fékk á dögunum skólastyrk hjá alþjóðlegum menntaskóla í Kostaríku.
SOS móðirin, Danny, og starfsfólk SOS undirbjuggu Lúnu bæði andlega og verklega fyrir brottförina til Kostaríku. Þá er hún í stöðugu sambandi við Danny og ráðgjafa á vegum SOS svo allt gangi vel fyrir sig. „Einn sálfræðingurinn sagði mér að lífið sé fullt af hindrunum en þær séu ekki til að hindra okkur í að uppfylla drauma.“
Ætlar að verða fræg fréttakona
Lúna hefur fundið ástríðu í upplýsingatækni og ætlar að læra fréttamennsku. Draumurinn hennar er að verða fræg fréttakona. Hún heldur líka í vonina um að blóðmóðir hennar nái að vinna sig út úr fíkninni og ætlar að hjálpa henni að gera það.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.