SOS sögur 21.janúar 2021

Ætlar að verða fyrsti Óskarsverðlaunahafi Nepal

Ætlar að verða fyrsti Óskarsverðlaunahafi Nepal

Rupesh Lama var þriggja ára þegar hann kom í SOS barnaþorpið í Kavre í Nepal þar sem hann ólst upp. Móðir hans giftist öðrum manni eftir að faðir hans lést og yfirgaf öll börnin sín þrjú af ástæðum sem Rupesh veit enn ekki hverjar eru. Rupesh kom í barnaþorpið ásamt yngri systur sinni en eldri bróðir þeirra bjó annarsstaðar.

Vinsæll skemmtikraftur í barnaþorpinu

Rupesh varð fljótt mjög vinsæll í barnaþorpinu fyrir að segja brandara og setja upp leikþætti þar sem hann setti vini sína og SOS systkini í hlutverk. Hann var sannkallaður skemmtikraftur og lýsti því sjálfur yfir að hann væri „fæddur leikari."

Rupesh tók menntun mjög alvarlega og lærði enskar bókmenntir í Tribhuvan háskóla í Katmandú. „SOS Barnaþorpin veittu mér tækifæri til að uppgötva sjálfan mig. Hver veit hvað hefði orðið um mig ef ég hefði ekki alist upp í barnaþorpinu. Ég gæti verið að ráfa um göturnar og betla fyrir mat og aldrei uppgötvað hæfileika mína," segir Rupesh sem nú er 24 ára leikari hjá leikfélagi í nepölsku höfuðborginni.

Stefnir á Óskarsverðlaun

„Markmið mitt er að verða fyrsti Óskarverðlaunahafi Nepal. Til að það takist verð ég að leggja hart að mér og landa hlutverki í góðri kvikmynd," segir Rupesh og leiðbeinandi hans úr barnaþorpinu, Binod Mani, er til vitnis um að sá draumur Rupesh gæti alveg eins orðið að veruleika.

„Þegar ég sá hann á sviðinu fékk ég þá tilfinningu að þarna væri á ferðinni ungur maður sem ólst upp í SOS barnaþorpi sem gæti ekki aðeins gert samtökin stolt heldur heila þjóð líka," segir Binod sem kom Rupesh að í leikhúsinu árið 2016 í gegnum landsþektan leikstjóra sem hann þekkir persónulega. „Ég er nokkuð viss um að sá tími kemur sem við getum borið Rupesh saman við bestu leikara Nepals," segir Binod.

Heimsækir barnaþorpið reglulega

Rupesh heimsækir barnaþorpið reglulega og heldur stundum leiklistarnámskeið þar fyrir börnin og segir þeim nýta tækifæri sín í lífinu. „Við fengum annað tækifæri í lífinu á að tilheyra fjölskyldu. Ekki glata því tækifæri. Elskum alla. Virðum alla," segir Rupesh.

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri framfleytir barni sem áður var umkomulaust og veitir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Viljir þú styrkja barn í tilteknu landi, t.d. í Króatíu, skrifar þú einfaldlega „Króatía" í dálkinn fyrir athugasemdir.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði