SOS sögur 23.júlí 2020

Af götunni í háskóla - Takk SOS!

Betlaði fyrir mat - er með háskólapróf í dag

Tumi Ralebitso flutti 11 ára gömul í SOS barnaþorpið í Maseru í Lesótó ásamt þremur yngri systkinum sínum eftir að móðir þeirra dó úr HIV/AIDS. Tumi er 26 ára í dag, nýútskrifuð með háskólagráðu í viðskiptafræði og er auk þess framúrskarandi söngkona.

„Ég átti í fyrsta lagi aldrei von á því að ég gæti nokkurn tímann farið í háskóla en núna er ég á leið í meistara- og doktorsnám í sálfræði. Þetta er langt umfram það sem ég gat leyft mér að dreyma um áður,“ segir Tumi sem þakkar SOS Barnaþorpunum velgengnina í lífinu og samdi af því tilefni lag sem hún tók upp í hljóðveri. Lagið heitir einfaldlega „Thank you" eða Takk.

Sváfu „á götunni" til að fá næturró

Tumi var 6 ára þegar foreldrar hennar skildu og við tóku mjög erfiðir tímar fyrir móður hennar sem stóð eftir atvinnulaus og ein með 6 börn. Móðir hennar reyndi eins og hún gat að afla tekna til að eiga fyrir mat, m.a. með því að selja smámuni í höfuðborginni Maseru og heimabruggaðan bjór. Þau bjuggu öll saman í litlu tveggja herbergja húsi sem fylltist reglulega af ölvuðu fólki vegna sölunnar á heimabrugginu.

„Hávaðinn og lætin af völdum ölvaðra karla og kvenna í þessari litlu íbúð voru óbærileg," segir Tumi þegar hún rifjar upp þennan tíma. „Ég og yngri bróðir minn forðuðum okkur oft í burtu og sváfum „á götunni" bara til að fá næturró svo við gætum sofið."

Sjáðu myndband með viðtali við Tumi

Borðuðu ekki í nokkra daga

Ástandið versnaði svo til muna þegar móðir þeirra veiktist. Tumi reyndi að selja ávexti til að afla einhverra tekna fyrir mat en það dugði ekki til svo hún þurfti stundum að betla fyrir mat. „Að þurfa að betla rændi mig sjálfsvirðingunni og ég þurfti að sætta mig við að ástandið var komið út fyrir öll vonleysismörk. Stundum borðuðum við ekki í nokkra daga,“ segir Tumi þegar hún rifjar upp þessa erfiðu tíma systkinanna áttu eftir að verða enn erfiðari.

Léttir að flytja í barnaþorpið

Móðir þeirra dó ári síðar og systkinin börðust í bökkum í nokkra mánuði áður en afi þeirra greip í taumana og hafði samband við SOS Barnaþorpin í Maseru. Tumi minnist þess hvað hún upplifði mikinn létti þegar hún flutti ásamt þremur yngri systkina sinna í barnaþorpið þegar hún var 11 ára. „Ég þurfti ekki lengur að hafa áhyggjur af því að útvega næstu máltíð og ég þurfti ekki lengur að vinna. Þarna breyttist allt til hins betra."

Hjálpar götubörnum

Tumi er í dag ekki aðeins háskólagengin heldur hyggur hún á enn frekara nám eins og áður segir. Hún var nýlega ráðin verkefnastjóri í atvinnueflingarverkefni fyrir ungt fólk og sinnir auk þess sjálfboðaliðastörfum fyrir samtökin Future of Africa til að hjálpa götubörnum í Lesótó. „Ég hef sögu að segja sem getur veitt þeim von. Ég get sagt þeim að það sé til leið af götunni í átt að bjartri framtíð."

Gaf út lag til að þakka SOS

Tumi er SOS Barnaþorpunum full þakklætis fyrir tækifærið sem hún fékk og samdi lagið „Takk" til að sýna þakklæti sitt. „Og líka til að vera rödd allra SOS barna eða hvaða barns sem er sem langar til að þakka þeim sem hafa haft jákvæð áhrif á líf sitt," segir Tumi að lokum.

6 Íslendingar eru SOS-styrktarforeldrar barna í barnaþorpinu í Maseru.

Horfðu og hlustaðu á Thank you með Tumi.

 

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 4.500 kr Styrkja tvö börn 9.000 kr Barnaþorp fyrir 4.500 kr