SOS sögur 13.október 2016

Amy fer heim

Þegar þau keyra út úr þorpinu spyr Soretha*, félagsráðgjafi SOS Barnaþorpanna, hvort Amy sé alveg, alveg viss um að hún rati.

„Já frænka, ég rata heim,“ svarar Amy. Hún brosir til systra sinna tveggja og fær brosið endurgoldið þar sem þær sitja í aftursætinu á bílnum, á leiðinni heim í fyrsta skipti í fjóra mánuði. Þær ætla að hitta mömmu sína og pabba.

Litli bróðir þeirra situr í fanginu á SOS-móður þeirra, Pamelu, í framsæti bílsins. Hann gefur systrum sínum þumalinn upp – merki sem jafnvel tveggja ára strákar í Suður Afríku þekkja.

„Hvað verðum við lengi heima?“ spyr Amy. „Þar til næsta föstudag væna, þá komum við og sækjum ykkur,“ segir Pamela. Amy kinkar kolli og starir út um gluggann.

Erfið æska, áföll og vanræksla

Þegar Amy var sex ára var hún að leika sér í hverfinu sínu með nokkrum vinum. Ókunnugur maður kom til hennar og bað hana um að sendast fyrir hann. Þegar hún neitaði tók hann hana á brott með sér. Hann hélt henni lokaðri inni í 15 klukkutíma þar sem hann beitti hana alvarlegu kynferðislegu ofbeldi. Hann lét hana svo lausa og hún fannst stuttu seinna, ráfandi um göturnar.

Tveimur árum síðar sagði hún frá reynslu sinni fyrir framan myndavél við réttarhöld mannsins. Hann situr nú í lífstíðarfangelsi.

„Þetta virðist vera það versta og grimmasta sem getur hent litla stelpu, en hún sýktist einnig af HIV veirunni vegna árásarinnar,“ sagði Soretha við fréttaritara SOS í viðtali daginn fyrir förina heim.

Svo er það hitt vandamálið.

Foreldrar Amy áttu við áfengisvandamál að stríða. Stundum hurfu þau heila helgi og skildu börnin sín ein eftir heima. Þau voru bæði atvinnulaus og fæðing litla bróður Amy gerði þeim of erfitt um vik. Þau dreifðu börnum sínum til vinafólks sem sýndi þeim litla athygli. Fyrir fjórum mánuðum sendu yfirvöld á svæðinu börnin til SOS Barnaþorpanna.

Pamela kúrir með litla drenginn í fanginu. Þegar börnin komu fyrst til Pamelu var hún ekki alveg viðbúin drengnum. Hann var svo lítill að hún hélt hann væri nýfæddur. „Smæð hans er vegna algjörrar vanrækslu. Ekki bara vegna vannæringar. Það vantaði alla örvun og hvatningu til þroska,“ sagði Pamela við fréttaritara SOS.  „Ég átti erfitt með að fela undrun mína þegar ég heyrði að börnin ættu að fara til foreldra sinna í viku. Hvers vegna ættum við að senda börnin aftur á stað þar sem eitt barnanna var brotið niður og hin gleymd?“

„Síðustu fjóra mánuði hefur félagsráðgjafi á vegum yfirvalda unnið með foreldrunum við að styrkja getu þeirra til að sjá um börn sín. Þau hafa bæði vinnu og móðirin er hætt að drekka. Við ákváðum að við myndum leyfa börnunum að fara heim í viku og sjá hvernig það gengi. Við megum aldrei gleyma að það besta fyrir börnin er að vera með mömmu sinni og pabba. Það er okkar vinna að gera þetta mögulegt ef það vinnur að bættum hag barnanna,“ sagði Soretha.

Bíllinn kemur að beygjunni sem leiðir að hverfinu sem foreldrar barnanna búa í. Stelpurnar í aftursætinu hrópa „frænka, frænka, beygðu hérna!“ Þær halda áfram að kalla leiðbeiningar þar til bíllinn stoppar við lítið hús þar sem snögghærður hundi situr við útidyrnar.

„Fluffy!“ kalla börnin í kór. Pamela og Soretha hjálpa börnunum inn, faðma þau og kveðja. Þær keyra til baka til þorpsins í þögn.

 

*Vegna persónuverndar hefur nöfnum í sögunni verið breytt. Staðsetning þorpsins er ekki nefnd af sömu ástæðu. 

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 4.500 kr Styrkja tvö börn 9.000 kr Barnaþorp fyrir 4.500 kr