„Barnaþorpið er kjarni manneskjunnar sem ég er í dag“
Yfir ein milljón barna í Dóminíska lýðveldinu búa við fátækt og meira en hálf milljón barna undir fimmtán ára aldri í landinu er umkomulaus. Þessi börn eiga engan að og eitt af hverjum fimm þeirra eru munaðarlaus, þ.e. hafa misst báða foreldra sína.
José Miguel var aðeins tveggja ára þegar hann lenti í þessari berskjölduðu stöðu fyrir 30 árum ásamt þremur systkinum sínum. Móðir þeirra gat ekki lengur séð fyrir börnunum sínum og hún sá þann eina kost í stöðunni að yfirgefa þau. Hún skildi þau eftir og tók þá við nýr veruleiki í lífi barnanna.
Foreldrar í fátækt yfirgefa börn sín
Það hljómar kannski óhugsandi að foreldri geti bara látið verða af því að yfirgefa börn sín en það er því miður raunveruleiki fjölmargra á fátækustu svæðum heims. Þetta var meira að segja nokkuð algengt á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar með tilheyrandi keðjuverkandi áhrifum á næstu kynslóðir þeirra sem gengu í gegnum slíkar raunir.
Tengsl systkinanna styrktust
En móðir José virðist hafa hugsað næstu skref að einhverju leyti. Systkinin fjögur fengu nýtt heimili í SOS barnaþorpinu í Los Mina þar sem þau eignuðust SOS mömmu og systkini. Meðan José ólst upp í barnaþorpinu varð hann ennþá nánari systkinum sínum og þau mynduðu öll sterk tengsl við SOS-systkini sín. SOS Barnaþorpin leggja nefnilega mikla áherslu á að umkomulaus systkini séu ekki aðskilin heldur fái að alast upp saman.
Útskrifaðist með frábærar einkunnir
Menntakerfið í barnaþorpinu, allt frá leikskólastigi og upp úr, undirbýr börnin vel fyrir fullorðinsárin og tók vel utan um José og systkini hans. José lauk menntaskólanámi sínu meðan hann bjó í barnaþorpinu og útskrifaðist með frábærar einkunnir. Eftir útskrift naut hann áframhaldandi stuðnings barnaþorpsins eins og venja er þangað til hann flutti og fór að standa á eigin fótum. Í því ferli hlaut hann m.a. starfsþjálfun, aðgengi að heilsugæslu, sálfræðiþjónustu og fleiru.
Bræðurnir ráðnir í vinnu hjá SOS
Eitt af systkinum José sem fengu heimili í SOS barnaþorpinu er tvíburabróðir hans. Þeir bræður þykja sýna framúrskarandi leiðtogahæfileika og starfa í dag sem trúnaðarmenn ungmenna í barnaþorpinu. Ungmennin njóta stuðnings og leiðsagnar bræðranna sem geta miðlað af reynslu sinni.
„Barnaþorpið er kjarni manneskjunnar sem ég er í dag“
José er í dag 32 ára fjölskyldufaðir og hann segir sig vera ríkan einstakling, ríkan af menntun og ástríkri fjölskyldu. José segir engan vafa leika á hverjum hann eigi að þakka þetta góða líf sem hann á í dag.
„Þetta hefði aldrei gerst án styrktaraðila og starfsins sem er unnið hjá SOS Barnaþorpunum. Barnaþorpið er kjarni manneskjunnar sem ég er í dag. Allir hérna eiga þátt í þeirri manneskju sem þú sérð í mér núna, manneskju sem getur látið drauma sína rætast og gefið aftur til samfélagsins sem ég bý í.“
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.