Börnin eru mjög hrædd
Þegar börn upplifa áfall er fátt mikilvægara en að hlúa vel að andlegri heilsu þeirra. Þetta veit Oksana, sálfræðingur til margra ára í SOS barnaþorpinu í Brovary í Úkraínu sem staðsett er í útjaðri höfuðborgarinnar Kænugarðs.
„Ég er í augnablikinu stödd í kjallara ásamt sonum mínum, fjögurra og tólf ára. Flugskeyti fljúga hér yfir okkur,“ sagði Oksana í símtali frá Brovary 1. mars sl. Eftir að innrás Rússa hófst hefur hún unnið náið með börnum og fósturfjölskyldum, bæði staðbundið og í gegnum fjarfundi, og hjálpað þeim að komast yfir óbærilegra hræðslu. Börnin og fjölskyldur þeirra sem eru á ábyrgð SOS Barnaþorpanna voru þennan dag ýmist í barnaþorpinu í Brovary eða borginni Truskavets, nálægt pólsku landamærunum.
Börnin fóru að borða mikið af sætindum, misstu þvag, urðu kvíðin og köstuðu upp. Einn drengur stóð fullklæddur innandyra, reiðubúinn að hlaupa af stað ef hann þyrfti að flýja. Oksana
Líkamleg einkenni óttans
Oksana segir að öll börnin hafi sýnt sömu líkamlegu einkenni ótta og kvíða þegar innrás Rússa hófst. „Börnin fóru að borða mikið af sætindum að sögn allra foreldranna. Sum barnanna misstu þvag, urðu kvíðin og köstuðu upp. Þau sýndu mismunandi líkamleg viðbrögð. Fósturmóðir eins drengs sagði mér að hann hefði alveg upp úr þurru klætt sig í úlpu og skó og staðið þannig lengi innan dyra. Þetta sagðist hann hafa gert til að vera reiðubúinn að hlaupa af stað ef hann þyrfti að flýja eitthvert,“ sagði Oksana sem af sinni einstöku fagmennsku tókst að hjálpa börnunum að líða betur.
Hún kveðst afskaplega fegin því að börnin hafi komist burt frá Úkraínu þennan dag. „Börnin í Brovary heyrðu öll í sprengingum og urðu hrædd. Ég þarf ekki að vera sérfræðingur til að skilja líðan barnanna og foreldranna þegar ég lít í augu þeirra.“
Sýnilegur ótti foreldra smitast til barnanna
Oksana segir þetta hafa verið sérstaklega erfitt fyrir þá fullorðnu því þeir einbeittu sér svo mikið að því að fela ótta sinn. Ef tilfilfinngalegt ástand foreldranna er sjáanlegt smitast það til barnanna, sérstaklega þeirra yngstu.
„Foreldrarnir finna til ábyrgðar og þeir vilja ekki hræða börnin. Það tekur verulega á að byrgja svona tilfinningar inni í sér og þetta er þung byrði á herðum foreldranna,“ segir Oksana. Hún bendir jafnframt á að það hjálpi börnunum að þau geti sýnt tilfinningar sínar í svona aðstæðum. Þau séu þannig að tjá sig og Oksana býr yfir ákveðnum aðferðum til að beisla þessar tilfinningar barnanna.
Ég talaði við börnin, kenndi þeim öndunaræfingar, ég notaði ýmsa leiki og æfingar áður en við tækluðum óttatilfinninguna. Oksana
Börnin þurftu að tjá sig
„Ég talaði við börnin, kenndi þeim öndunaræfingar, notaði ýmsa leiki og æfingar áður en við tækluðum óttatilfinninguna. Ég lét þau ekki finna tilfinninguna heldur setti umræðuna upp eins og leik. Ég bað þau um að lýsa fyrir mér hvernig þeim leið áður en þau urðu hrædd, meðan og eftir, svo hvert einasta barn gæti talað.“
Oksana segir að börnin hafi fyrst um sinn verið feimin og talað lítið en þegar börnin fóru að ræða hræðsluna, eitt af öðru, töluðu þau öll stanslaust. „Börnin eru mjög hrædd. Einn drengur vill t.d. ekki fara á klósettið án mömmu sinnar, þó hann sé kominn á unglingsárin. Hann bíður frekar þolinmóður á næturnar þó honum sé mál vegna þess að hann er hræddur. Börnin sváfu á dýnum á gólfinu í margar nætur. Hann lá einfaldlega alveg upp við móður sína.“
Sálfræðiaðstoð er stór þáttur í starfi SOS Barnaþorpanna um heim allan enda koma mörg börn til samtakanna úr mismunandi aðstæðum. 53 Íslendingar styrkja börn hjá SOS Barnaþorpunum í Úkraínu. Allar fósturfjölskyldur í Úkraínu sem eru á ábyrgð SOS hafa verið fluttar til Póllands eða Rúmeníu, að unanskildum fimm fjölskyldum sem telja sig öruggar og kusu að vera áfram í landinu.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.