SOS sögur 22.september 2022

Draumurinn sem rættist

Draumurinn sem rættist

Ingibjörg Steingrímsdóttir segir frá heimsókn sinni til tíbetskrar styrktardóttur sinnar. Þessi frásögn birtist í fréttablaði SOS árið 2008 en er nú í fyrsta sinn birt í vefútgáfu hér á sos.is með góðfúslegu leyfi Ingibjargar.

Það var um það bil árið 1988 sem ég sá smáauglýsingu í síðdegisblaði þar sem fólki bauðst að „taka að sér“ fósturbarn í gegnum SOS Barnaþorpin í Danmörku. Ég hafði lesið um þessi samtök í „dönsku blöðunum“ sem flestir lásu þá. Ég vissi að þau voru stofnuð í Austurríki með hag barna að leiðarljósi.

Án þess að ræða þetta við manninn minn sendi ég inn bréf með ósk um frekari upplýsingar, sem ég fékk um hæl. Þar var mér boðið að velja mér styrktarbarn frá nokkrum löndum. Eitt þessara landa var Indland þar sem stofnað hafði verið SOS-barnaþorp fyrir börn landflótta Tíbetbúa í útjaðri bæjarins Leh sem er á Himalajahásléttunni í um 3500 metra hæð.

Fór að fá bréf frá stúlkunni

Tíbet hefur alltaf verið sérstakt í mínum huga og því var ég ekki í vafa um að þarna væri hjálpar þörf. Ég fékk að styrkja stúlku að nafni Sonam. Fyrst voru bréfin sem ég fékk teikningar af einu og öðru, svo fóru að koma nokkur orð á ensku eftir því sem Sonam lærði meira í ensku. Hún virtist ákveðin í að læra og var alltaf ofarlega í sínum árgangi. Hún sagði mér frá lífinu í skólanum og á heimilinu sem hún átti í SOS þorpinu og einnig að hún fengi að fara til foreldra sinna í skólafríum. Hún hafði lítið sagt mér frá fjölskyldu sinni en ég vissi þó að hún átti foreldra á lífi sem höfðu ekki efni á að mennta dæturnar og engan áttu þau soninn.

Ingibjörg átti ekki von á að hún myndi nokkurn tímann fá tækifæri á að ferðast til þessa fjarlæga bæjar og hitta Sonam. En ótrúleg tilviljun varð til þess að þetta tækifæri kom upp í hendur Ingibjargar árið 2007. Ingibjörg átti ekki von á að hún myndi nokkurn tímann fá tækifæri á að ferðast til þessa fjarlæga bæjar og hitta Sonam. En ótrúleg tilviljun varð til þess að þetta tækifæri kom upp í hendur Ingibjargar árið 2007.

Hélt áfram að styrkja Sonam eftir að hún fór í háskóla

Ég gerði samkomulag við forstöðukonu þorpsins þess efnis að þegar ég sendi Sonam gjafapeninga þá tæki hún að sér að skipta þeim í þrennt, Sonam, heimili foreldra og SOS heimilið fengju jafnan hlut. Þetta voru engar upphæðir að mér fannst en kæmu kannski að einhverju gagni. Sonam hélt áfram að læra, fór í menntaskóla og fékk styrk frá Dalai Lama menntasamtökunum til að fara í háskóla og mér var boðið að halda áfram að styrkja hana.

Hún hefur lokið sínu háskólanámi frá Háskólanum í Pune og er farin að vinna fyrir góðum launum. Hún hefur ásamt eldri systrunum tekið að sér að kosta nám þriggja yngstu systranna en þær eru níu systurnar! [Í heimsókn Ingibjargar á skrifstofu SOS í september 2022 upplýsti hún um að Sonam starfi í dag sem kennari.]

Óvænt tækifæri eftir dauðsfall eiginmannsins

Ég gerði mér enga von um að ég ætti eftir að koma til Leh, það var bara fjarlægur draumur. Maðurinn minn lést fyrir jól 2003 eftir alvarleg veikindi sem komu eins og þruma yfir okkur öll í fjölskyldunni, einmitt þegar allt hefði átt að horfa til betri vegar. Ég fór þá að safna fyrir draumaferðinni og var ákveðin í að fara til Leh þó það væri það seinasta sem ég gerði. Ferðaskrifstofa bænda auglýsti ferð fyrir maraþonhlaupara til Leh og þó ég sé enginn hlaupari kannaði ég hvort ég hefði möguleika á að fara með. Það var samþykkt ef ég tæki þátt í öllu öðru.

Ellefta júlí lögðum við af stað og þann þrettánda flugum við upp til Leh. Þangað er bara flogið mjög snemma morguns til að nýta uppstreymið að mér skilst. Vegna þess að borgin er svo hátt yfir sjávarmáli var okkur ráðlagt að taka lífinu með ró fyrsta daginn og tjáð að allir myndu finna fyrir þunna loftinu með einkennum eins og svima, ógleði og höfuðverk. Þessari reglu var ekki farið eftir, því við fórum í könnunarleiðangur seinna um daginn og komumst við flest að því að betra hefði verið að fylgja leiðbeiningunum að heiman!

Sonam lauk háskólanámi og tók þátt í að greiða menntun yngri systra sinna. Hér er hún með heimabæ sinn Leh í baksýn. Sonam lauk háskólanámi og tók þátt í að greiða menntun yngri systra sinna. Hér er hún með heimabæ sinn Leh í baksýn.

Fagnaðarfundir með Sonam og Ingibjörgu

14. júlí átti að skoða tvö klaustur en því var breytt og í staðinn skoðuðum við eitt klaustur, gengum um fallegan dal og heimsóttum SOS-barnaþorpið „mitt“. Ég hafði áður látið vita að sennilega kæmi ég í heimsókn 18. eða 19. júlí sem voru hlaupadagarnir. Skrifstofa SOS hér heima sendi einnig upplýsingar um komu mína. Það varð því uppi fótur og fit þegar hópurinn birtist og Ingibjörg var ein af hópnum. Ég fékk að vita að Sonam væri komin í frí, en hún starfar annars í Pune sem er 4 daga ferð með lest og rútu! Hringt var í hana og hún kom hlaupandi.

Með okkur urðu fagnaðarfundir. Ég hafði lítið getað haft samband við hana eftir að hún fór í háskólann og fékk litlar fréttir af henni seinustu tvö árin. Ferðafélagar mínir urðu himinlifandi fyrir mína hönd og vorum við myndaðar í bak og fyrir. Þegar við komum aftur á hótelið lét ég vita að ég ætti von á Sonam fósturdóttur minni.

Í ljós kom að fyrir þessar fáu krónur sem ég hafði sent gátu þau reist sér betra hús. Ingibjörg

Var tekið sem hún væri drottningin af Íslandi

Fjórum dögum síðar kom Sonam á hótelið til mín og við fórum að heimsækja foreldra hennar sem búa í flóttamannabúðum nærri SOS-barnaþorpinu. Þessar flóttamannabúðir eru þannig að Tíbetarnir hafa fengið úthlutað annarsvegar landsvæði þar sem þeir geta reist sér hús og hinsvegar landskika (ekki á sama stað) þar sem þeir rækta allskonar grænmeti og korn til vetrarins, sem er mjög harður þarna.

Mér var tekið sem væri ég drottningin af Íslandi og vissi ekki hvernig ég átti að vera því í ljós kom að fyrir þessar fáu krónur sem ég hafði sent gátu þau reist sér betra hús. Pabbi þeirra er smiður af Guðs náð og hefur haft nokkra vinnu af smíðum. Foreldrar Sonam eru ómenntaðir og tala bara tíbetsku, svo dæturnar Sonam og Tenzin túlkuðu fyrir mig en Tenzin átti líka íslenskt styrktarforeldri.

Sonam ásamt föður sínum sem er smiður af Guðs náð. Sonam ásamt föður sínum sem er smiður af Guðs náð.

Náðu nokkrum samverustundum

Öryggisins vegna fá börnin ekki að vita heimilisfang styrktarforeldra og lengi vel héldu þau að ég væri dönsk því þaðan komu greiðslurnar fyrstu árin. Ég átti yndislegar stundir með þeim. Við Sonam hittumst svo nokkrum sinnum þegar stundir gáfust á milli dagskrár ferðaskrifstofunnar.

Það var líka frábært að hafa innfæddan einkaleiðsögumann sem fræddi mig um eitt og annað, fór með mig um allt og kenndi mér að líf okkar Íslendinga er ólíkt betra en þeirra en samt eru þau svo þakklát og ánægð með það sem þau hafa, biðja fyrir okkur og bera von í brjósti um að landið þeirra verði aftur frjálst og að aftur verði hægt að fara heim til Tíbet.

Viðbót í september 2022: Sonam hringdi nýlega í Ingibjörgu til að færa henni þær gleðifréttir að hún hefði eignast son. Hún er hamingjusöm, gengur vel í lífinu og starfar sem kennari.

-Frásögn og myndir: Ingibjörg Steingrímsdóttir.

Móðir Sonam við húsið sem þau byggðu fyrir íslenskt fé. Móðir Sonam við húsið sem þau byggðu fyrir íslenskt fé.
SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 4.500 kr Styrkja tvö börn 9.000 kr Barnaþorp fyrir 4.500 kr