SOS sögur 20.desember 2023

Ég fyllist sorg og hugsa mikið til þeirra

Ég fyllist sorg og hugsa mikið til þeirra

„Það snertir mig mjög djúpt. Ég fylltist sorg og hugsa mikið til þeirra, bæði Palestínu- og Ísraelsmegin. Það er svo gríðarlega sorglegt að þetta sé staðan,“ segir Hera Björk Þórhallsdóttir sem heimsótti SOS barnaþorp í nágrenni Nazareth í Ísrael og Bethlehem í Palestínu vorið 2019.

Hera var bókuð til að skemmta á viðburðum í tengslum við Eurovision söngvakeppnina sem þá var haldin í Tel Aviv. Sem velgjörðarsendiherra SOS Barnaþorpanna á Íslandi vildi Hera nota tækifærið og kynna sér starfið í SOS barnaþorpum beggja vegna landamæranna. Heru finnst eins og flestum öðrum erfitt að fylgjast með ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs.

Hér má sjá myndband með frásögn Heru í barnaþorpin ásamt myndefni sem hún og umboðsmaður hennar Valgeir Magnússon tóku í ferðinni 2019.

Bara að reyna að eiga eðlilegt líf

„Ég man að við ræddum það þegar ég heimsótti SOS barnaþorpin á báðum stöðum hvað þetta væri erfið staða og að nú hlyti að fara að nást einhverskonar samkomulag. Það var svona mín tilfinning þegar ég var þarna að viss partur væri öfgar í báðar áttir en svo er restin, bæði í Ísrael og Palestínu, bara að reyna að eiga eðlilegt líf. Í barnaþorpunum eru börn sem hafa þegar orðið fyrir áföllum. Þau hafa lent í stríðsátökum eða öðrum hamförum og orðið viðskila við foreldra sína eða misst þá. Þetta er ekkert að gera þeim gott og ég er búin að hugsa mjög mikið til þeirra.“

SOS móðirin á heimilinu hafði misst bæði manninn sinn og barn í stríðsátökum. SOS móðirin á heimilinu hafði misst bæði manninn sinn og barn í stríðsátökum.

Boðið í heimabakaða pizzu

Hera rifjar upp hversu hlýlegar móttökur hún fékk í báðum barnaþorpunum og nefnir sem dæmi gestrisni barnanna í Bethlehem. „Það var verið að elda fyrir okkur, baka pizzu sem er þvílíkur hátíðarmatur þarna. Þetta var eiginlega besta pizza sem ég hef smakkað. Svo fengum við litla kók. Þau komu með það til okkar eins og þau væru að gefa okkur hjartað úr sér. Þau sungu fyrir okkur og gáfu mér dásamlega mynd,“ minnist Hera með miklu stolti.

Myndina gerði lítil stúlka með því að fá Heru til að leggja hönd sína á blað og teiknaði í kringum fingur hennar og lófa. Svo skrifuðu þau á arabísku á blaðið, „Hönd þín skilur mark sitt eftir hér.“ Skilaboðin segir Hera fela í sér þakklæti barnanna fyrir heimsóknina. „Vá hvað þetta var fallegt og ég á þetta blað heima. Þetta er listaverk í mínum huga.“

Lítil stúlka í SOS barnaþorpinu í Bethlehem teiknaði mynd fyrir Heru. Lítil stúlka í SOS barnaþorpinu í Bethlehem teiknaði mynd fyrir Heru.

Hera hefur verið velgjörðasendiherra fyrir SOS Barnaþorpin síðan 2009. Hún hafði áður heimsótt SOS barnaþorp í Frakklandi og segir barnaþorpin í eðli sínu vera mjög svipuð hverju öðru. Aðferðafræði samtakanna við umönnun barnanna heillar Heru.

„Börnin eru saman, fjögur til átta, undir sama þakki hjá einni SOS móður. Þessar SOS-mæður eru mínar hetjur. Jesús góður hvað þær eru ótrúlegar og ekki síður æðislegt að hitta þær. Sérstaklega eftirminnileg er SOS móðir barnanna sem Hera borðaði pizzu með.

SOS-mamman missti barn og eiginmann

„Mamman var yndisleg og tók rosalega vel á móti okkur. Hún hafði misst bæði manninn sinn og barn í stríðsátökum. Hún sagði mér að í staðinn fyrir að gefast upp hafi hún sótt um vinnu hjá SOS Barnaþorpunum og vann sig upp í að verða SOS móðir. Algerlega magnað. Ég á ekki orð. Að sjá hvað börnin eru í góðum höndum, hvað þeim líður vel með mæðrunum og hversu mikil tilfinningarleg tengsl eru á milli þeirra, þetta eru móðurtengsl.“

Hera segir örlítinn mun vera á SOS barnaþorpunum í Ísrael annars vegar og Palestínu hins vegar. „Það voru meiri reglur í Ísrael. Börnin eru í skóla í hverfinu en í Palestínu er skólinn innan veggja þorpsins og það var þannig líka í Frakklandi,“ segir Hera, þar sem hún hefur einnig heimsótt SOS barnaþorp áður.

Börnin sungu fyrir Heru og Hera söng fyrir börnin. Börnin sungu fyrir Heru og Hera söng fyrir börnin.

Bara fólk sem vill lifa lífinu sínu

Það sem Hera segir að standi upp úr eftir heimsóknir sínar til Ísrael og Palestínu er hversu ólík upplifun hennar var miðað við það sem hún hafði verið mötuð af í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum.

„Ég var svona utanaðkomandi, mötuð af þessum upplýsingum, Ísrael þetta, Palestína þetta og Hamas hitt. En ég upplifði þetta þannig að þetta er bara fólk eins og ég í gríðarlega erfiðum aðstæðum og allir eru bara að reyna að komast af. Alla langaði bara til að fá að vakna og líða vel. Ég fann ekki mikinn mun á milli barnaþorpanna í Ísrael og Palestínu. Þau eru að tala saman. Þau vissu að ég væri að fara þarna á milli og skiluðu góðum kveðjum á milli. Það eru allir að vinna að sama takmarkinu þarna sem er velferð barnanna.“

Þessu fann hún líka fyrir víðast hvar annarsstaðar meðan á ferð hennar stóð en þó með smá undantekningu. „Það var á einum og einum stað sem ég fann fyrir einhverri reiði í minn garð fyrir að vera forréttinda Evrópubúi og eitthvað svona. Ég skil það bara vel.“

Starfsfólk hokið af áratuga reynslu

Þegar stríðsátökin brutust út 7. október sl. gátu SOS Barnaþorpin brugðist strax við. Útbreiðsla samtakanna er mikil sem þýðir að samtökin eru oftar en ekki til staðar nálægt upptökum neyðarinnar. Þannig gat starfsfólk okkar sinnt fyrstu hjálp, tryggt öryggi barna, hjálpað börnum sem urðu viðskila við foreldra sína og veitt áfallahjálp. Þetta segir Hera vera ákveðna sérstöðu SOS Barnaþorpanna.

„Samtökin eru til staðar í um 130 löndum með fólk hokið af áratuga reynslu. Þarna eru börn í áfalli sem SOS getur tekið á móti. Ég held að það sé styrkleikinn og samskiptin á milli eru góð.“

Hera segir að þetta sé besta pizza og besta kók sem hún hefur fengið. Hera segir að þetta sé besta pizza og besta kók sem hún hefur fengið.

Viðtal: Hans Steinar Bjarnason
Myndir: Hera Björk og Valgeir Magnússon

SOS-foreldri barna á Gaza

SOS-foreldri barna á Gaza

SOS-foreldri barna á Gaza

Sem SOS-foreldri barna á Gaza styrkir þú SOS barnaþorpið í Rafah á Gaza í Palestínu með mánaðarlegu framlagi sem nemur 4.500 krónum. Framlagi þínu er varið í daglegan rekstur þorpsins svo tryggja megi öryggi og velferð þeirra barna sem þar búa og fer þeim nú fjölgandi. Einnig er hægt að greiða stakt framlag í neyðarsöfnun SOS.

Mánaðarlegt framlag
4.500 kr