„Ég var alltaf leiður“
„Mig langar ekki að fara aftur! Mér líður illa þar og það hata mig allir,“ sagði William mörg kvöld í röð eftir að hann fékk nýtt heimili í SOS Barnaþorpinu í Owu-ljebu í Nígeríu fyrir tveimur árum síðan.
Í dag er William níu ára og hann á enn erfitt með að tala um fortíðina. Hann var sjö ára þegar hann kom í þorpið en fyrir þann tíma bjó hann á götunni með móður sinni sem glímdi við andleg veikindi.
Móðir Williams beitti hann alvarlegu ofbeldi ásamt því að láta hann vinna mikið. Hún neyddi hann til að betla og stela og ef hann kom ekki með pening til baka lamdi hún hann eða grýtti. Seint á kvöldin lét hún litla drenginn vinna hjá sjómönnum þar sem hann var látinn þrífa eða gera við fiskinet.
William litli gat sjaldan hvílt sig og þegar SOS Barnaþorpin fengu tilkynningu um ástand drengsins var hann afar vannærður. Litli líkami hans var þakinn útbrotum og sárum. „Ég var alltaf leiður en ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Mig langaði að hlaupa í burtu frá mömmu en vissi ekki hvert. Ég man hvað ég var glaður þegar konan frá SOS kom og tók mig í burtu,“ segir William.
SOS móðir Williams segir drenginn hafa þurft mikinn stuðning fyrst um sinn. „Hann þekkti ekkert annað líferni en það sem hann ólst upp við á götunni og því var hann svolítið ringlaður fyrst um sinn,“ segir hún. „Fyrstu dagana vaknaði hann á morgnana og spurði mig hvort við værum ekki að fara út að betla. Þá dreymdi hann greinilega illa og kallaði á hjálp upp úr svefni. Hann var hræddur við fullorðið fólk og hélt að honum yrði rænt úr þorpinu.“
William fékk aðstoð hjá sérfræðingum og enn þann dag í dag hittir hann sálfræðing. Hann er í SOS grunnskólanum í þorpinu og líka vel en hann hafði aldrei farið í skóla áður. „Oft sá ég krakka með skólatösku og velti fyrir mér hvert þau væru að fara. Og nú fæ ég að fara með!“ segir William glaður. Það kom þó mörgum á óvart að William þekkti nokkra stafi en því miður var ástæðan fyrir því ekki jákvæð. „Mamma las stundum upp stafina fyrir mig þegar ég var lítill og ég átti svo að endurtaka þá. Ef ég mundi þá ekki lamdi hún mig og ég fékk ekki að borða næsta dag.“
En hvað ætlar William að vinna við þegar hann verður stór? „Ég ætla að verða læknir,“ segir hann stoltur. „Ég ætla nefnilega að lækna lítil börn sem eru veik.“
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.