Fékk skólastyrk tólf ára gömul
Frá unga aldri hefur Masresha Esayas skarað fram úr en í dag er hún 26 ára. Hún kláraði háskólanám og starfar nú sem enskukennari í alþjóðlegum skóla í Eþíópíu. Hún er nýkomin aftur til Eþíópíu eftir langa dvöl erlendis og heimsótti á dögunum fjölskyldu sína í SOS Barnaþorpinu í Addis Ababa.
Nú fórst þú frekar ung að heiman. Hversu gömul varstu og hvernig var það?
Ég var aðeins tólf ára þegar ég fékk skólastyrk til að stunda nám í Svasílandi. Ég fór þangað og var í sjö ár en að sjálfsögðu alltaf undir handleiðslu SOS. Eftir það fór ég í háskóla í Bandaríkjunum og útskrifaðist árið 2015. Ég starfaði í nokkur ár í Bandaríkjunum áður en ég kom aftur heim til Eþíópíu.
Hvenær komstu aftur til Eþíópíu?
Ég kom heim frá Bandaríkjunum fyrir fjórum mánuðum. Ég fékk mjög fljótlega starf í alþjóðlegum skóla en einnig er ég aðstoðarmanneskja 11 ára gamals drengs sem á við námserfiðleika en einnig félagslega. Mig langar til að hjálpa börnum eins og mér var hjálpað.
Hvernig er tilfinningin að heimsækja æskuheimilið eftir 13 ára fjarveru?
Það er æðislegt. Mér finnst á ákveðinn hátt að tíminn hafi staðið í stað en sama tíma liðið svo hratt. Barnaþorpið hefur ekkert breyst en systkini mín eru orðin svo stór. Hvernig var barnæska þín? Hún var mjög góð eftir að ég kom í barnaþorpið. Ég stóð mig mjög vel í skóla og var alla tíð afburðarnemandi. Þess vegna upplifði ég snemma eins og ég þyrfti að upplifa heiminn, ferðast og kynnast öðrum löndum. Sumum fannst ég of ung til að fara ein til Svasílands til að mennta mig en SOS móðir mín studdi mig alla leið. Hún þekkti mig best og vissi að ég hafði þroska í það. Vegna bakgrunns barnanna í barnaþorpunum eiga þau það til að tala sig niður og eru ekki með sjálfstraust til að elta drauma sína. Þess vegna er mikilvægt að SOS foreldrarnir styðji börnin sín og hvetji þau áfram.
Hvenær komstu í SOS Barnaþorpið?
Ég var fimm ára gömul. Þá bjó ég hjá frænda mínum en ég þekkti foreldra mína aldrei. Ég man eftir því þegar ég var sótt. Það kom hvítur bíll og ég var ekkert hrædd. Það var eins og ég vissi að nú myndi ástandið batna. Ég kom inn á heimilið, fór í sturtu og fékk svo hádegismat. Mér leið strax vel. Húsið var stórt, garðurinn fallegur, allt var hreint og svo var fullt af krökkum úti að leika. Í þorpinu mátti ég allt. Ég mátti lesa margar bækur, spila fótbolta inni í herbergi og borða eins mikið og ég vildi. Það allra besta var svo að vera hluti af fjölskyldu og fá menntun. Það er eitthvað sem breytti lífi mínu og fyrir það verð ég SOS alltaf þakklát.
Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?
Mig langar til að vinna hér í Eþíópíu í tvö ár áður en ég fer aftur erlendis til að mennta mig meira. Eftir það langar mig til að vinna fyrir frjáls félagasamtök sem starfa í þágu kvenna.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.