Fjölskylda flýr til að bjarga lífi dóttur sinnar
Natalía og Roman* flúðu þorpið sitt í austur-Úkraínu ásamt þremur börnum þegar að stríðið náði til þeirra. Ástæðan var að dóttir þeirra, Dasha, er með krabbamein og þurfti nauðsynlega á læknisaðstoð að halda. Þau komust til Kænugarðs þar sem þau fengu aðstoð og stuðning frá SOS Barnaþorpunum – og nýja von fyrir framtíðina.
Fjölskylda Natalíu bjóst ekki við að þorpið þeirra í austur-Úkraínu hefði mikilvægt hlutverk í átökunum, en sú varð raunin. Staðsetning þorpsins, milli Lugansk og borganna Debaltseve og Harkiv, olli því að þorpið varð fyrir stanslausum sprengingum í 40 daga.
Földu sig neðanjarðar
Á fimm ára afmælisdegi Döshu, í júlí 2014, urðu sprengingar í þorpinu svo miklar að foreldrarnir ásamt þremur börnum sínum þurftu að eyða deginum í felum inni á baðherbergi.
Fjölskyldan hafði þá þegar eytt fjölda nátta í loftvarnarbyrgi. „Þegar stríðið hófst vorum við í loftvarnarbyrginu í 14 daga samfleytt með þremur öðrum fjölskyldum,“ segir Natalía. „Börnin sváfu í hillum þar sem við geymdum áður krukkur og dósir. Yuri (sonur Natalíu) var bara nokkurra mánaða gamall og svaf í kartöflukassa. Við fórum aðeins út þegar allt var hljótt.“
Þegar lyf Döshu voru að klárast og ástandið í þorpinu orðið mjög hættulegt fékk fjölskyldan aðstoð Úkraínska hersins til að komast frá þorpinu. Þau fóru með þyrlu ásamt særðum hermönnum til Kharkiv. Þar var lítið pláss fyrir farangur svo þau tóku aðeins eina íþróttatösku með sér sem þau fylltu af bleyjum og fötum til skiptanna.
Fjölskyldan flutti sig til Kænugarðs eins fljótt og auðið var til þess að fá meðferð fyrir Döshu. Þar kynntust þau SOS Barnaþorpunum og öðrum góðgerðarsamtökum.
Hjálp fyrir börnin
SOS Barnaþorpin í Úkraínu hafa veitt fjölskyldunni aðstoð með ýmsum hætti. Samtökin hafa til dæmis veitt Yuri þroskaþjálfun og útvegað vítamín, lyf, einkakennslu og talþjálfun fyrir Döshu.
„Lyfin og öll efnislega hjálpin hefur verið okkur mikilvæg, en allt annað skiptir jafn miklu máli,“ segir Natalía. „Námskeiðin fyrir börnin eru frábær, en bara að eiga í samskiptum er lífsnauðsynlegt, algjör guðsblessun. Það hjálpar svo mikið.“
Fjölskyldan reynir nú að finna öruggt húsaskjól fyrir Döshu, en vegna veikindanna má stúlkan ekki upplifa kvíða og óöryggi.
Bakrunnsupplýsingar:
Í dag, tveimur árum eftir að átökin í Úkraínu hófust eru rúmar þrjár milljónir íbúa í þörf fyrir mannúðaraðstoð, sem gerir ástandið að einum af 10 stærstu krísum heimsins, samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna.
Í apríl 2016 höfðu úkraínsk stjórnvöld skráð tæpar tvær milljónir úkraínskra flóttamanna innan landsins. Átökin hafa haft gríðarleg áhrif á líf 580.000 barna sem búa á svæðum sem ekki er stjórnað af stjórnvöldum. Af þessum börnum er talið að um 200.000 þurfi á sálrænni aðstoð að halda.
Einn af hverjum fimm skólum á átakasvæðunum hefur verið skemmdur illa eða eyðilagður eftir að átökin hófust. Meira en 215.000 börn sem eru vegalaus í öðrum hlutum landsins þurfa einnig á félags- og menntunaraðstoð að halda til þess að geta aðlagast nýju umhverfi.
*Öllum nöfnum í greininni hefur verið breytt vegna persónuverndar.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.