Fórnarlamb mansals fær skjól í SOS barnaþorpi
Ludginie Jovin mun seint skilja hvernig foreldrar hennar gátu afhent hana ókunnugu fólki eftir jarðskjálftann á Haítí árið 2010. Jarðskjálftinn olli mikilli ringulreið og því miður voru óprúttnir einstaklingar sem nýttu sér þá viðkvæmu stöðu sem börnin voru í. Ludginie, þá 12 ára gömul, var ein af 33 börnum sem bandarískur hópur reyndi að ræna og fara með til Dóminíska lýðveldisins.
„Ég man eftir þessu eins og þetta hafi gerst í gær,“ segir Ludginie sem nú er 21 árs og stundar nám í snyrtifræði. „Ég yfirgaf heimili mitt með ókunnugu fólki sem sagðist ætla að fara með mig til Bandaríkjanna. Foreldrar mínir samþykktu þetta þar sem þeir höfðu misst allt í jarðskjálftanum og áttu engan pening til að annast mig.“
„Það var mikið áfall að upplifa hversu auðveld þessi ákvörðun var fyrir foreldra mína,“ segir Ludginie. „Þeir létu mig í hendur ókunnugra án nokkurrar staðfestingar um að fá að sjá mig einhvern tímann aftur.“
Rútan stöðvuð
Rútan sem flytja átti börnin yfir til Dóminíska lýðveldisins var stöðvuð af lögreglunni á landamærunum og börnunum komið fyrir í SOS Barnaþorpi á Haítí. Ludginie var mjög hrædd þegar hún kom fyrst í þorpið og hún man að hún svaf ekkert fyrstu nóttina. SOS mamma hennar, Rachelle, fullvissaði hana um að hún væri örugg og þyrfti ekki lengur að vera hrædd. Enn í dag er Ludginie mjög þakklát henni.
Smátt og smátt fór henni svo að líða betur og eignast vini. Börnin fengu aðstoð við að vinna úr áfallinu sem þau urðu fyrir vegna jarðskjálftans og aðskilnaðarins við foreldra sína. Eftir tveggja mánaða dvöl í barnaþorpinu fór Ludginie til ömmu sinnar og afa og bjó hjá þeim. Foreldrar hennar eru skilin og búa hvort í sínu lagi, án dóttur sinnar.
Framkvæmdarstjóri SOS Barnaþorpanna á Haítí segir að samtökin hafi gengt grundvallarhlutverki í að vernda börnin og koma í veg fyrir að varnarlaus börn væru tekin ófrjálsri hendi eftir jarðskjálftann 2010. Það að foreldrar skyldu gefa börn sín frá sér til ókunnugra hafi hins vegar verið versta birtingarmynd þeirrar ringulreiðar sem átti sér stað í kjölfar skjálftans.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.