Frá Bangladesh til Noregs
„Ég man ekki mikið eftir því þegar ég kom fyrst í SOS Barnaþorpið í Khulna í Bangladesh,“ segir Mostak sem fæddist árið 1982 í Bangladesh. „Ég veit þó að það var amma mín sem fór með mig í þorpið. Seinna frétti ég að pabbi dó þegar ég var eins árs og mamma var of andlega veik til að hugsa um mig. Amma tók mig þá að sér en gat ekki séð um mig vegna fátæktar,“ segir Mostak.
Það þykir skammarlegt að veikjast af geðrænum sjúkdómum í Bangladesh og einnig er litið hornauga á munaðarlaus börn. Þegar mamma Mostak veiktist vildi enginn í fjölskyldunni taka hann að sér nema amma hans.
SOS Barnaþorpið í Khulna
„Amma átti erfitt með að hugsa um mig og fékk ráðleggingar um að hafa samband við SOS Barnaþorpið í Khulna. Hún fór þangað ásamt móður minni og þær skildu mig þar mig eftir. Ég man að ég var miður mín fyrst um sinn og saknaði fjölskyldunnar minnar,“ segir Mostak. Smám saman vandist litli drengurinn nýja lífinu. „Ég eignaðist systkini og SOS móður, ég byrjaði í skóla og varð öruggari með hverjum deginum.“
„Þegar ég var tólf ára byrjaði ég svo í skóla sem staðsettur var fyrir utan þorpið. Fyrir þann tíma höfðum við ekki oft farið út fyrir þorpið svo þetta voru viðbrigði. Við fórum með skólarútu til og frá skóla og tókum fljótt eftir því að í nýja skólanum voru ekki allir jafnir eins og við höfðum vanist. Mörgum börnum var strítt og mismunað,“ segir Mostak.
„Ég var mjög áhugasamur nemandi og vildi sífellt læra eitthvað nýtt. Ég hafði alltaf verið forvitinn og skráði mig því í skiptinám erlendis þegar ég var sautján ára. Eitt kvöldið var ég að spila krikket í garðinum þegar forstöðumaður þorpsins kallar í mig. Ég hafði ekki hugmynd um hvað þetta snérist en þá segir hann mér að ég þurfi að fara í myndatöku fyrir vegabréfið mitt. Ég hafði aldrei átt slíkt áður.“
„Þér hefur verið boðið í viðtal vegna skiptinámsins. Ef þú verður valinn hefurðu möguleika á að fara til Noregs í nám, og fá fullan skólastyrk þar að auki“ sagði forstöðumaðurinn. „Ég fór daginn eftir til höfuðborgarinnar í viðtal. Valnefndin sagðist senda út svör eftir einn mánuð. Einum mánuði síðar var ég kallaður á skrifstofu forstöðumannsins. Hann rétti mér bréf, óskaði mér til hamingju og bað mig um að lesa bréfið upphátt. Í fyrstu skildi ég ekki um hvað bréfið snérist. Þar voru alls kyns upplýsingar um hvernig föt ég þyrfti að kaupa og hvernig veðrið væri í Noregi. Smám saman rann það upp fyrir mér að ég hefði fengið skólastyrkinn og væri á leið til Noregs.“
Úr chili í salt og pipar
„Ég vissi töluvert um Noreg þar sem nokkur SOS systkini mín áttu norska styrktarforeldra. Þau höfðu fengið send dagatöl með myndum af norska fánanum á, fjörðunum, trjánum og fjöllunum. Mér fannst myndirnar óraunverulegar og hélt að þær væru gerðar í tölvu. Þá höfðu vinir mínir úr þorpinu mestar áhyggjur af því hvernig ég myndi venjast kryddunum í Noregi. Norðmenn notuðu víst bara salt og pipar á meðan við í Bangladesh notuðum chili,“ segir Mostak og brosir.
„Þegar ég lenti í Noregi hófst svo ævintýrið. SOS Barnaþorpin, bæði í Noregi og í Bangladesh, höfðu stöðugt eftirlit með mér og hjálpuðu mér með allt sem þurfti. Ég var fullur orku og mjög spenntur yfir lífinu í nýju landi. Námið gekk afar vel og eftir að ég útskrifaðist fór ég í frekara nám bæði í Sviss og Bandaríkjunum. Leiðin lá þó aftur til Noregs þar sem ég kláraði meistaranám í stjórnun. Í dag starfa ég við UWS háskólann í Singapore og líkar vel. Ég sækist ekki endilega eftir því að verða ríkur í framtíðinni heldur langar mig að gefa af mér. SOS Barnaþorpin gáfu mér tækifæri á lífi sem annars hefði verið fjarlægur draumur fyrir mig, og nú langar mig að hjálpa öðrum að láta sinn draum rætast,“ segir Mostak að lokum.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.