Fundu nýfætt barn á ruslahaugi
Honey rauk út úr húsinu þegar hún heyrði skerandi öskur nágranna. Á ruslahaugi á byggingarsvæði bak við heimili hennar lá nýfætt og yfirgefið barn, vafið inn í rauðleitan klút og íklætt stórum gráum bol. Þennan dag, 13. desember 2015, fjölgaði óvænt um eina manneskju í lítilli fjölskyldu í höfuðborginni Hargeisa í Sómalílandi. Honey sem þarna var 16 ára, hafði fundið nýja systur.
„Þetta var klukkan 10 að morgni. Ég man greinilega þegar Honey kom inn með stúlkuna í fanginu.“ segir Su'ad, móðir Honey. „Enginn nágrannanna þorði að taka litlu stúlkuna upp af ótta við smithættu svo hún lá bara þarna á ruslahaugnum og grét. Við Honey tókum að okkur að sjá um stúlkuna þangað til við vissum hvað við ættum að gera við hana.“
Hélt að barnauppeldi væri að baki
Eiginmaður Su´ad, Abdirahman, kom heim úr vinnunni síðdegis en hann vinnur sem vörubílstjóri. Hann er 63 ára og var búinn að útiloka frekara barnauppeldi en auk Honey eiga þau tvö uppkomin börn. Fjölskyldan ákvað engu að síður að taka að sér litlu stúlkuna og gaf henni nafnið Asha. „Hún er blómið í húsinu. Við elskum hana mjög mikið.“ segir Abdirahman.
Asha er nú tveggja ára og hjónin urðu SOS-fósturforeldrar þegar slíkt verkefni var sett á laggirnar árið 2016. SOS greiðir þeim sem nemur rúmum fimm þúsund krónum á mánuði fyrir mat og fötum á Öshu. SOS greiðir einnig lækniskostnað ef Asha veikist og námsgjöld þegar hún verður eldri. Mánaðarlaun Abdirahman eru rúmar 20 þúsund krónur.
Abdirahman sér ekki sólina fyrir litlu stúlkunni. „Hún er Guðsgjöf og glæðir heimilið lífi. Mér líður hræðilega þegar hún veikist og finnst eins og eitthvað vanti í húsið. Ég elska að leika við hana.“
Þrjú þúsund börn búa á götunni
Þegar fjölskylda verður SOS-fósturfjölskylda í Sómalíulandi fær hún fjárstuðning vegna uppeldisins og er undir eftirliti félagsráðgjafa samtakanna. SOS Barnaþorpin eru með svipuð verkefni í fjölda annarra Afríkuþjóða. 11% barna í Sómalíulandi hafa misst annað foreldri sitt eða bæði og áætlað er að um þrjú þúsund börn búi á götunni í höfuðborginni Hargeisa.
Asha er ekki raunverulegt nafn stúlkunnar. Það var búið til fyrir þessa frásögn af persónuverndarástæðum.
Frásögn og viðtal: Anders Bobek, SOS Barnaþorpunum í Danmörku. Ljósmyndir: Lars Just.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.