SOS sögur 11.desember 2020

Fyrirgefðu að ég vildi ekki vera pabbi þinn

Fyrirgefðu að ég vildi ekki vera pabbi þinn

Lífið fór ekki vel af stað hjá Leanne litlu. Móðir hennar lést eftir fæðingu í Bujumburu, höfuðborg Búrúndí árið 1998, og pabbi Leanne afneitaði faðerninu. Alger óvissa ríkti um framtíð stúlkunnar en nágrannakona, Beatrice að nafni, ákvað að taka barnið að sér.

En Beatrice lést þremur árum síðar og Leanne var aftur orðin munaðarlaus. Þegar Beatrice lá á dánarbeðinu grátbað hún systur sína, Révocate, að taka að sér litlu stúlkuna eftir andlát sitt. Systirin varð við þeirri bón en fjölskylda hennar var svo fjölmenn að hún gat á endanum ekki sinnt grunnþörfum stúlkunnar. Þegar Leanne var orðin 7 ára óskaði Révocate eftir heimili fyrir stúlkuna í SOS barnaþorpinu í Muyinga og þar eignaðist hún heimili, SOS móður og systkini.

4 Íslendingar eru SOS-foreldrar barna í barnaþorpinu í Muyinga.

En erfið uppvaxtarárin sátu í Leanne og þegar hún var 11 ára fóru hegðunarvandamál að gera vart við sig. Hún flúði oft að heiman og þurfti að endurtaka fjórða bekk í skólanum. SOS mamma hennar, Euphémie, tók þá til sinna ráða og fór að sýna stúlkunni meiri skilning, vera hlustandi og veita henni meiri athygli og tíma. „Hún varð mun opnari og afslappaðri, fór að treysta mér betur og sjálfstraust hennar óx. Það gladdi mig mjög,” segir Euphémie.

Vendipunkturinn

En Leanne fannst ennþá eitthvað vanta og eftir að hún flutti á ungmennaheimili barnaþorpsins 15 ára brotnaði hún saman fyrir framan umsjónarkonuna. Hin ungmennin fengu heimsóknir frá ættingjum sínum en enginn heimsótti Leanne. Vanlíðan hennar fékk á umsjónarkonuna og ári síðar hafði hún samband við Révocate, sem hafði komið með Leanne í barnaþorpið á sínum tíma. Ákveðið var að Leanne færi að heimsækja stjúpfjölskyldu sína í höfuðborgina í næsta sumarfríi. Umsjónarkonan færði Leanne þessar góðu fréttir og hún réði sér ekki fyrir kæti. Henni fannst tíminn líða allt of hægt og miklir fagnaðarfundir urðu þegar Leanne hitti fósturfjölskyldu sína í fyrsta sinn í nærri 10 ár. Blásið var til veislu og allir vildu heyra hvað drifið hafði á daga Leanne.

Hitta pabba sinn í fyrsta sinn

Leanne vissi að faðir sinn væri á lífi en hann sat í fangelsi. Hún fór þangað að heimsækja hann og sú stund var afar tilfinningaþrungin. Hvorki Leanne né faðir hennar gátu haldið aftur tárunum. „Fyrirgefðu að ég vildi ekki viðurkenna að ég væri pabbi þinn,” sagði hann grátandi. Hann var fullur eftirsjár og sagði Leanne frá því hversu yndisleg móðir hennar hefði verið. Hún hefði átt erfitt líf en aldrei kvartað.

Faðir Leanne losnaði úr fangelsi nokkrum mánuðum síðar og hafa þau verið í nánu sambandi síðan. Leanne æfir körfubolta og hefur meðal annars verið útnefnd besti leikmaðurinn á skólamóti. Henni gengur vel í skóla og SOS systur hennar líta upp til hennar. Eftir erfiða æsku brosir lífið nú við hinni lífsglöðu Leanne.

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 4.500 kr Styrkja tvö börn 9.000 kr Barnaþorp fyrir 4.500 kr