Gefur mér meira en orð fá lýst
Sunna Dís Kristjánsdóttir frá Hafnarfirði segir að upplifun sín af heimsókn í SOS barnaþorp á eyjunni Balí í Indónesíu í haust hafi verið ógleymanleg. Hún segir að ferðin hafi verið ævintýri líkust og minningin um hana muni alltaf lifa með fjölskyldu sinni.
ÉG VIL GERAST SOS-STYRKTARFORELDRI
„Það jafnast ekkert á við að sjá með eigin augum aðstæður barnanna, hve hamingjusöm þau eru og hversu vel hugsað er um þau. Þessi heimsókn jók vafalaust á stolt mitt sem styrktarforledri“ segir Sunna sem sjálf hefur um árabil styrkt barn í barnaþorpi í Jakarta í Indónesíu. „Þessi upplifun mun alltaf búa með okkur fjölskyldunni og ég er staðráðin í að fara einn daginn og hitt mitt eigið styrktarbarn líka.“
Ákvað að styrkja þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn
Ákvörðunina um að styrkja tók Sunna þegar hún átti sitt fyrsta barn. „Mér fannst óviðjafnanlegt að geta veitt barni sem býr við gjörólíkar aðstæður og tækifæri á að lifa betra lífi, fá fjölskyldu og ástríkt heimili og fá öllum grunnþörfum sínum mætt. Það er síðan hreinlega engu líkt að fylgjast með styrktarbarninu sínu vaxa og fá fréttir og myndir reglulega. Það gefur mér meira en orð fá lýst.“
Maður Sunnu ættleiddur frá Indónesíu
Sunna á þrjú börn með manni sínum sem er ættleiddur frá Indónesíu. „Hann og börnin okkar þrjú voru því afar spennt að kanna þennan hluta uppruna síns nánar. Því miður sáum við okkur ekki fært að ferðast yfir til Jakarta en við vorum staðráðin í að gera heimsókn í SOS þorp hluta af minningum og upplifun þessarar ferðar okkar yfir hálfan hnöttinn.“
Sunna og fjölskylda hennar heimsóttu þorpið á Balí á föstudegi þegar eldri börnin höfðu lokið skóla. Þau fengu hlýlegar móttökur og var fylgt um þorpið og sýndar aðstæður, hvernig börnin búa og hvað þau geta haft fyrir stafni.
Aldrei verið sælla að gefa en þiggja
„Við komum færandi hendi með fótbolta, foooty æfingabolta, ásamt litum, blöðum og minnisspili. Börnin voru mjög þakklát og vildu drengirnir strax slá til fótboltaleiks sem við að sjálfsögðu tókum þátt í. Það er mér svo sérstaklega minnisstætt að þegar við yfirgáfum þorpið héldu drengirnir að þeir þyrftu að skila boltunum. Svipurinn á þeim var engu líkur þegar ein SOS móðirin útskýrði að þetta væri gjöf, eign þorpsins. Það hefur aldrei verið jafn satt að sælla sé að gefa en þiggja en einmitt á þessu augnabliki.“
Á öðrum stað í þorpinu voru nokkur börn í jógatíma sem fer þannig fram að eldri börnin stýra athöfninni og nýta þekkingu sem þau hafa fengið í skólanum. „Síðan fylgja hin börnin fyrirmælum og skiptast stundum á að velja jógastöður. Það var aðdáunarvert hvað börnin voru öll yfirveguð, kurteis og viljug að aðstoða hvert annað.“
Yfir 50 Íslendingar eru styrktarforeldrar barna í fimm SOS barnaþorpum í Indónesíu.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.