„Get ekki beðið eftir að njóta fleiri ára með þeim“
Tvíburasysturnar Cassandra og Celeste fæddust í Malaví í byrjun ágúst 2012. Móðir þeirra lést rúmu ári eftir fæðinguna sem gerði það að verkum að faðir stúlknanna þurfti að sjá einn fyrir níu börnum sínum en hann starfaði á bóndabæ þar sem tekjur hans voru litlar. Þar af leiðandi þurfti fjölskyldan að reiða sig á matargjafir frá hjálparstofnunum og nágrönnum.
Elstu börnin voru tíu og tólf ára þegar móðir þeirra dó og því þurftu þau að sjá um tvíburasysturnar á meðan fjölskyldufaðirinn var í vinnu. Þá þurftu þau einnig að sækja vatn langar vegalengdir og tóku tvíburana með sér. Vegna fátæktar var ekkert barnanna í skóla eða leikskóla.
SOS Barnaþorpin fengu ábendingu um slæmar aðstæður barnanna og úr varð að SOS félagsráðgjafinn Paul Nyirongo fór inn á heimilið en þetta var fyrsta verkefni Pauls hjá SOS Barnaþorpunum. „Ég man vel eftir heimsókninni en ég fór þangað með núverandi SOS móður barnanna, Sophie. Mér brá afar mikið þegar ég kom fyrst inn í húsið þar sem ég sá stúlkurnar liggjandi á gólfinu. Ég sá hvergi mat eða vatn þar inni. Við tókum yngstu þrjú börnin með okkur í barnaþorpið en eldri börnin fengu ný heimili hjá fjölskyldum í nágrenninu.“
Cassandra og Celeste fengu nýtt heimili hjá Sophie í SOS Barnaþorpinu í Mzuzu ásamt sex ára bróður sínum, Emmanuel. „Þessi börn eiga sérstakan stað í mínu hjarta,“ segir Paul. „Ég man að ég hugsaði alla leiðina í barnaþorpið hvort stúlkurnar myndu lifa ferðina af og var því mjög ánægður að sjá hversu vel þær brögguðust fyrstu dagana eftir komuna í þorpið.“
„Emmanuel var orðinn sex ára þegar hann kom og því var ég svolítið hræddur um andlegan þroska hans. Ég varði miklum tíma með honum fyrstu vikurnar og reyndi að hjálpa honum að aðlagast. Ólíkt systrum sínum þá mundi hann vel eftir líffræðilegri móður sinni og við skoðuðum myndir af henni ásamt því að hann sagði mér frá henni. Smám saman tók hann SOS móður sína í sátt,“ segir Paul.
Í dag eru öll börnin í góðu ásigkomulagi og líður vel. Þá eru þau í góðu sambandi við líffræðileg eldri systkini sín og föður. „Emmanuel er byrjaður í skóla og systurnar í leikskóla. Þau voru öll svo vannærð þegar þau komu fyrst að ég var hrædd um að þau væru andlega sködduð. En í dag er málþroski þeirra til fyrirmyndar og þau verða afar sjaldan veik. Ég get ekki beðið eftir að njóta fleiri ára með þeim,“ segir Sophie, SOS móðir barnanna.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.