„Hefðum ekki getað ímyndað okkur þetta líf“
William er rúmlega tvítugur rafvirki. Hann þakkar SOS Barnaþorpunum í Malaví fyrir að bjarga lífi sínu. „Áður en SOS kom inn í líf mitt bjó ég við vonlausar aðstæður. Í dag er líf mitt frábært,“ segir William sem sér fram á bjarta framtíð.
William er elstur fjögurra systkina. Hann á einn bróður sem er þrettán ára og níu ára tvíburasystur. Eftir að faðir systkinanna lést fyrir sex árum síðan varð líf fjölskyldunnar erfitt. Móðir Williams var atvinnulaus og því voru tekjur fjölskyldunnar engar. Hún hafði í raun ekki efni á að ala öll börnin upp.
Niðurstaðan varð sú að William hætti í skóla til að hjálpa móður sinni og afla tekna. Það var svo árið 2010 að fjölskyldunni bauðst aðstoð frá Fjölskyldueflingu SOS Barnaþorpanna. Yngstu börnin fóru í grunn- og leikskóla, móðir Williams fór á saumanámskeið og fékk saumavél frá SOS en William skráði sig í verknámskóla til að nema rafvirkjun. Þá byggðu samtökin nýtt heimili handa fjölskyldunni en húsakostur hennar var afar slæmur áður.
„Við bjuggum í kofa sem lak það mikið að við gátum varla sofið á næturnar. Þegar það rigndi eyddum við nóttunum standandi undir þurrum stað. Þegar loksins hætti að rigna sátum við uppi með rennandi blaut rúm og húsgögn“ segir William.
William kláraði rafvirkjanámið fyrir nokkrum vikum síðan. „Ég verð í hlutastarfi í sumar og vonast svo til að fá fasta vinnu í haust,“ segir hann stoltur. „Ég hef nú þegar tekið nokkur verkefni að mér og fæ vel borgað. Draumurinn er að standa vel fjárhagslega og geta leyft mér hluti. Þá myndi ég vilja opna rafvöruverslun,“ útskýrir hann.
Með tekjum sínum aðstoðar hann móður sína enn frekar. „Mamma leggur hart að sér. Hún starfar á saumastofu og þurfum við ekki lengur á aðstoð SOS að halda. Við erum orðin fjárhagslega sjálfstæð, systkini mín standa sig vel í skólanum og framtíðin er björt. Við hefðum ekki getað ímyndað okkur þetta líf!“
Skjólvinir styðja við Fjölskyldueflingu SOS Barnaþorpanna.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.