„Hér erum við örugg“
SOS móðirin Nicole Princivil er nýflutt í SOS Barnaþorpið í Les Cayes á Haítí ásamt SOS börnum sínum. Liðin eru fimm ár síðan jarðskjálftinn á Haíti reið yfir og er þetta í fyrsta skipti sem fjölskyldan er saman komin inni á heimili í SOS Barnaþorpi en hún hefur búið í bráðabirgðahúsnæði undanfarin ár.
Saga fjölskyldunnar hófst stuttu eftir að jarðskjálftinn á Haíti reið yfir í janúar árið 2010 en Nicole gerðist SOS móðir stuttu fyrir hamfarirnar. Í kjölfar skjálftans komu yfir 400 munaðarlaus börn í SOS Barnaþorpið í Santo sem staðsett er rétt fyrir utan höfuðborg landsins, Port-au-Prince.
Markmiðið eftir skjálftann var alltaf að byggja nýtt SOS Barnaþorp sem nú er tilbúið. Barnaþorpið er staðsett í Les Cayes og var formlega opnað síðastliðinn laugardag. Fjölskyldurnar hafa nú þegar flutt inn á nýju heimilin. „Okkur líður vel á nýja heimilinu. Hér erum við örugg og erum hluti af yndislegu samfélagi,“ segir Nicole.
„Ástandið á Haítí var mjög alvarlegt eftir jarðskjálftann. Börn sem misst höfðu foreldra sína bjuggu á götunni við skelfilegar aðstæður. Þar á meðal þau sem nú eru orðin SOS börnin mín.“
Börnin á heimilinu eru níu talsins á aldrinum níu til sautján ára. Charles er yngstur en hann var í mjög slæmu ásigkomulagi þegar hann kom í þorpið. „Hann var aðeins fjögurra ára þegar hann missti foreldra sína í skjálftanum og var lengi að jafna sig eftir áfallið. Ég gaf honum mikla athygli, ást og umhyggju. Sjálfstraust hans óx með tímanum og í dag líður honum vel.“
Nicole segir drenginn ljúfan en þó uppátækjasaman. „Charles er yndislegur. Honum finnst skemmtilegt að spila fótbolta og uppáhalds liðið hans er Real Madrid. Þá hefur hann mikinn áhuga á eldamennsku. Kannski verður hann kokkur í framtíðinni!“
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.