Ines varð ólétt 12 ára
Eftir að Ines varð barnshafandi, aðeins 12 ára gömul, hrönnuðust vandamálin upp og líf hennar var allt annað en dans á rósum. Slæmt samband Inesar við móður hennar og endalaus vandamál urðu á endanum til þess að hún hraktist að heiman ásamt barninu sínu og yngri bróður.
Þar sem Ines var ólögráða óttaðist hún að nýfæddur sonur hennar yrði tekinn af henni en félagsmálayfirvöld í Bólivíu höfðu milligöngu um að börnin fengu nýtt heimili í SOS barnaþorpinu í Santa Cruz.
„Þar gat ég verið í skóla á morgnana og hugsað um barnið eftir hádegi," segir Ines sem gat með miklum erfiðismunum klárað skólann á tveimur árum. Hún lærði sætabrauðsgerð og er nú í framhaldsnámi því tengt.
Lærði að hugsa um barnið sitt
Ines segir að í barnaþorpinu hafi sér liðið einstaklega vel og það tók hana ekki langan tíma að öðlast tilfinninguna að tilheyra fjölskyldu. „Ég kunni strax vel við að vera í SOS fjölskyldu og ég lærði helling. Ég lærði táknmál af samskiptum við heyrnarskertan SOS bróður minn og meira að segja litli sonur minn lærði það líka. Ég var alltaf stóra systir á heimilinu."
Í barnaþorpinu upplifði Ines samheldni, samvinnu og kærleik. Sonur hennar fékk alla þá ást og umönnun sem hvert barn þarfnast og hún fékk alla nauðsynlega leiðsögn við umönnun ungabarns enda sjálf nýskriðin á táningsaldurinn þegar hún átti barnið.
„Ég vissi ekki einu sinni hvernig átti að baða hann svo Clemencia frænka sá um fyrsta þvottinn eftir að ég kom í barnaþorpið. Hún kenndi mér það og lika hvernig og hvenær ég átti að gefa honum. Ég var hrædd í fyrstu en svo náði ég fljótt tökum á þessu," segir Ines.
Fór aftur til mömmu
Eins og saga Inesar ber með sér eru líka börn í SOS barnaþorpum sem eiga kynforeldra á lífi. SOS Barnaþorpin líta svo á að best sé fyrir börn að búa hjá kynforeldrum sínum eða skyldmennum þegar það er mögulegt en að öðrum kosti eru þau áfram í barnaþorpinu.
Þegar Ines hafði dvalið í þorpinu í tvö ár sóttist móðir hennar eftir því að börnin flyttu aftur heim til hennar. Á þetta var látið reyna undir eftirliti SOS og batnaði samband þeirra mæðgna til muna. Þær eru enn að gera upp erfiða fortíð sína og eiga annað slagið samræður um erfið mál. En þær viðurkenna báðar að þær hafi þroskast nógu mikið til að geta fengist við þá gleði og erfiðleika sem lífið færir þeim.
Erfitt að fara frá SOS fjölskyldunni
Ines segir að það hafi samt verið erfitt að yfirgefa SOS fjölskylduna sína. „Ég var hrædd en innst inni langaði mig aftur til mömmu. Ég sakna SOS-bræðra minna mjög mikið en við förum reglulega þangað í heimsókn. Þeir verða alltaf alltaf bræður mínir og ég elska SOS fjölskylduna mína eins og við værum blóðskyld. Sonur minn elskar þau líka og hann mun alast upp í nálægð við SOS bræður mína. Þau verða áfram fjölskylda okkar líka."
Ines er 18 ára í dag og hún á sér þann draum heitastan að halda áfram í námi, eignast heimili og skapa syni sínum gott líf.
13 Íslendingar eru SOS-foreldrar barna í barnaþorpinu í Santa Cruz.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.