Inga Lind hitti SOS-börnin sín í fyrsta sinn
Þegar Inga Lind Karlsdóttir var 18 ára gerðist hún styrktarforeldri 5 ára stúlku í SOS barnaþorpinu í Greenfields á Indlandi. Litla stúlkan, Sonia, hafði misst móður sína og faðir hennar gat ekki hugsað um hana vegna þess að hann var blindur.
Inga Lind fylgdist með uppvexti hennar næstu 14 árin í gegnum bréf og myndir sem styrktarforeldrar fá send tvisvar á ári. Og stundum skrifaði Sonia bréf til Ingu. Sonia flutti svo úr barnaþorpinu 19 ára og fór að standa á eigin fótum. Í dag er hún þrítug og á 9 ára gamla dóttur, Tönju, en eiginmaður hennar lést fyrir þremur árum. Sonia býr hjá blóðskyldri systur sinni og fjölskyldu hennar í Delí og vinnur á snyrtistofu.
Allt í einu komin í fangið á mér
Ingu Lind hafði lengi langað til að heimsækja Soniu og lét loks verða af því í janúar 2020 þegar hún hélt ásamt hluta af fjölskyldu sinni utan til Indlands. Sonia kemur reglulega í barnaþorpið til að heimsækja SOS móður sína og gerði sér sérstaka ferð þangað til að hitta SOS-foreldri sitt, Ingu Lind, sem var komin alla leið frá Íslandi.
„Það var dásamlegt að hitta Soniu. Hún var bara allt í einu komin í fangið á mér þegar ég gekk að húsinu sem hún bjó í. Hún er svo hlý og góð og svo tók hún í hönd mína, leiddi mig um húsið og sýndi mér gamla herbergið sitt.“
Innslag um heimsóknina var sýnt í Íslandi í dag á Stöð 2 og má sjá það hér.
Klipping innslags: Adelina Antal
Minningarnar lifnuðu við
Inga Lind tók með sér til Indlands myndir og bréf sem Sonia skrifaði henni þegar hún var barn og skoðaði þau með henni. „Sonia sagði að það hefðu kviknað margar minningar þegar hún sá bréfin og þá mundi hún allt í einu eftir öllu.“ Inga Lind segir að það sé gott að sjá hvað Sonia hefur það gott í dag. „Henni líður bara vel og það er greinilegt að hún hefur búið við gott atlæti hérna og fengið góðan grunn.“
Erfiðast að sjá hana gráta þegar ég fór
Inga Lind og Sonia náðu strax miklum tilfinningalegum tengslum í heimsókninni. „Já alveg, það voru vissulega tengsl fyrir. Við vorum aðeins í sambandi þau ár sem hún bjó hérna. Hún var líka svo hlý og opin. Mér fannst eiginlega erfiðast að sjá hana gráta þegar ég fór. Maður fær svona hlýju í hjartað þegar maður finnur að maður skipti máli. Við ætlum að halda áfram að vera í sambandi.“
Styrkti annað barn á eftir Soniu
Inga Lind hefur styrkt tvö börn í barnaþorpinu í Greenfields samfellt frá árinu 1994. Þegar Sonia flutti að heiman og fór að standa á eigin fótum árið 2008 tók Inga Lind að sér að styrkja fimm ára dreng í þorpinu. Hún hefur einnig fylgst með uppvexti hans nú í 12 ár. Hann heitir Pushkar og er orðinn 17 ára og það voru líka fagnaðarfundir þegar þau loks hittust í þessari sömu heimsókn.
„Það var æðislegt að hitta Pushkar. Hann er einu ári yngri en sonur minn. Flottur og fallegur drengur sem elskar íþróttir og mun örugglega gera þær að atvinnu sinni. Ég veit ekki hvaða íþrótt hann æfir ekki. Hann er greinilega elskaður af SOS mömmu sinni sem sat þarna með okkur. ”
Undirbýr sig fyrir fullorðinsárin
SOS ungmenni á þessum aldri búa á ungmennaheimili á vegum barnaþorpsins þar sem þau læra að hugsa um sig sjálf og undirbúa sig fyrir fullorðinsárin. Það á einnig við um Pushkar sem ólst upp á þessu SOS heimili ásamt blóðskyldum systkinum sínum. „Það finnst mér einmitt eitt af því fallega sem hér er passað upp á, að blóðskyld systkini séu aldrei aðskilin heldur fái alltaf að alast upp saman. Honum sagði mér að sér líði vel á ungmennaheimilinu þar sem hann á góða vini.“
Einstök upplifun að heimsækja barnaþorp
Þetta er í fyrsta sinn sem Inga Lind kemur í SOS barnaþorp en styrktarforeldrar eiga rétt á slíkum heimsóknum einu sinni á ári. Hún segir upplifunina engu líka. „Ég hef ímyndað mér í 26 ár hvernig þetta líti allt út. Ég hef séð myndir úr barnaþorpum en það er allt öðru vísi að koma hingað í alvörunni sjálf. Ég hef alltaf borið þetta traust til SOS Barnaþorpanna einmitt út af fólki sem hefur heimsótt þorpin og fengið tækifæri til að hitta styrktarbörnin sín. Ég hef lesið og séð viðtöl við þetta fólk.“
Hefur alið upp 28 börn
„Það er svo góð tilfinning að koma hingað og finna að hér skiptir kærleikurinn öllu máli. Ástin á börnunum og velferð þeirra. Það er bara engin spurning að það er alltaf númer eitt hérna. Hérna fá börn að vera börn og það fá allir að gera það sem hentar þeim. Krökkunum líður greinilega vel hérna í faðmi þessarra ástríku SOS-mæðra sem ég get ekki hætt að dást að. Þær hafa valið að gera það að lífsstarfi sínu að ala upp önnur börn. Mamma hans Pushkar er búin að ala upp 28 börn. Magnaðar konur.“
Ef Inga Lind gæti sent skilaboð til sjálfrar sín 18 ára
„Ég myndi segja: gerðu þetta! Ekki hika. Þetta er rétt ákvörðun hjá þér. Þú átt að styrkja svona starfsemi. Þú munt ekki sjá eftir því.”
38 Íslendingar styrkja börn í Greenfields
Hvergi eru fleiri SOS barnaþorp en á Indlandi eða 32 talsins og í þeim búa samtals um 6.700 börn. Íslendingar eru SOS-foreldrar yfir 9 þúsund barna í 433 barnaþorpum í 107 löndum. Langflestir Íslendingar eða 779, styrkja börn og barnaþorp á Indlandi. 38 Íslendingar styrkja börn í Greenfields barnaþorpinu.
SOS Barnaþorpin reka 541 barnaþorp í 126 löndum víðsvegar um heiminn. Í þeim búa um 60 þúsund börn og ungmenni sem áður voru umkomulaus en eiga nú heimili, foreldra og systkini og ganga í skóla.
Viðtal: Hans Steinar Bjarnason
Myndir: Hans og Einar Árnason (Stöð 2).
Inga Lind ræddi heimsóknina til Indlands einnig við Lindu Blöndal í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.