Lamia og fótboltadraumurinn
Lamia* býr í Jórdaníu. Hún er 16 ára og æfir fótbolta. Hún hefur frá unga aldri elskað að spila fótbolta. Hana dreymir um að verða atvinnukona í fótbolta og til að draumur hennar rætist ferðast hún langar leiðir til að mæta á fótboltaæfingar. Þrisvar í viku fer Lamia á æfingu í Amman en þangað ferðast hún með rútu sem tekur a.m.k. tvo klukkutíma hvora leið.
Ungmennaheimili SOS Barnaþorpanna
Lamia ólst upp í barnaþorpinu í Irbid í Jórdaníu en býr nú á ungmennaheimili SOS ásamt sjö stelpum. Stelpurnar fluttu inn á ungmennaheimilið þegar þær voru 14 ára en það er hluti af SOS Barnaþorpunum í Jórdaníu. Þar búa þrjár SOS mömmur með þeim og aðstoða þær og undirbúa til að takast á við verkefni framtíðarinnar.
Lamia byrjaði að æfa fótbolta þegar hún var 7 ára. SOS mamma hennar, Nayfa, segir að hún sé mjög metnaðarfull og stefni á að verða atvinnukona í fótbolta. Hún taki boltann með sér hvert sem hún fer. Hún vill verða sterk og sjálfstæð kona.
Góð fyrirmynd
Lamia kemur stundum í heimsókn í barnaþorpið sem hún ólst upp í. Hún er mjög hlý og góð við börnin og henni þykir mjög vænt um stelpurnar í þorpinu. Henni finnst skemmtilegt að spila við stelpurnar sem hún spilaði við þegar hún var lítil.
Lamia og vinkonur hennar eru mjög ánægðar og stoltar af því að allar stelpur geti spilað fótbolta. Hana langar að segja stelpum sem spila fótbolta að elta drauma sína og gefast aldrei upp, sama hvað.
*Nöfnum hefur verið breytt til að gæta persónuverndar.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.