Langar að hjálpa börnum og ungmennum
Masresha var fimm ára þegar hún flutti í SOS Barnaþorpið í Addis Abeba í Eþíópíu ásamt eldri systur sinni. Áður hafði fullorðinn frændi þeirra tekið þær að sér eftir að foreldrar systranna voru ekki lengur til staðar fyrir þær. En frændinn gat ekki annast þær lengi.
„Ég man eftir deginum sem við komum í SOS Barnaþorpið,“ segir Masresha og brosir. „Þetta var sólríkur dagur. Við fórum í sturtu og fengum góðan grænmetisrétt að borða.“
Masresha segist hafa verið full vonar við komuna í barnaþorpið. „Ég var bjartsýn og það hjálpaði mér að vera með eldri systur sem var mín stoð og stytta á erfiðum tímum.“
Fljótlega kom í ljós að Masresha átti auðvelt með nám. Hún fór í alþjóðlegan framhaldsskóla í Svasílandi og síðan í háskóla í Chicago í Bandaríkjunum. Eftir útskrift vann hún í tvö ár í Bandaríkjunum en flutti svo aftur heim til Eþíópíu fyrir ári síðan. Þar starfar hún nú við að liðsinna háskólanemum við að sækja um skólastyrki og nám erlendis.
Masresha er reglulegur gestur í SOS Barnaþorpinu í Addis Abeba. Þangað kemur hún til að hitta SOS mæðurnar og börnin sem sum hver ólust upp með henni í þorpinu. Á meðan við vorum að tala við hana á fyrrum heimili hennar í barnaþorpinu komu inn tvö börn sem gengu rakleitt til hennar og föðmuðu hana innilega.
Þá hittir hún þar stundum önnur fyrrum SOS börn, eins og t.d. hana Habtamnesh sem ólst upp í næsta húsi í barnaþorpinu en er nú, líkt og Masresha orðin sjálfstæð, farin að vinna og meira að segja komin með eigin fjölskyldu, mann og barn.
„Þakklæti,“ segir Masresha þegar við spyrjum hana hvað henni er efst í huga þegar hún lítur til baka. „Það var frábært að fá að alast upp í góðri fjölskyldu þar sem börnin fengu þörfum sínum mætt og eining ríkti.“
En hvað með framtíðaráform? „Mig langar að fara til Evrópu í framhaldsnám. T.d. til Finnlands,“ segir Maresha og bætir við: „En mig langar áfram að hjálpa börnum og ungmennum.“
Við óskum þessari flottu stelpu alls hins besta í framtíðinni.
Ljósm. Vinkonurnar Masresha (t.v.) og Habtamnesh
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.