Man ekki eftir foreldrum sínum
Mónika missti báða foreldra sína þegar hún var barn og var á vergangi fyrstu ár ævi sinnar. Hún var sjö ára þegar hún flutti í SOS barnaþorp í Malaví þar sem hún ólst upp. Í dag hefur hún lokið háskólanámi og starfar sem félagsráðgjafi.
Mónika var sjö ára þegar hún kom í SOS barnaþorpið í Mzuzu í Malaví árið 2003. Báðir foreldrar hennar létust þegar hún var barn og hún man ekki eftir þeim. Mónika fór fyrst í fóstur hjá ættingjum ásamt tveimur systrum sínum en þær reyndust vera mikil byrði fyrir ættingjana. Systurnar voru látnar vinna í stað þess að ganga í skóla.
Sjáðu vídeóviðal okkar við Móniku hér fyrir neðan.
Litu á börnin sem vinnufólk
„Fyrir þeim vorum við bara eins og hvert annað vinnufólk frekar en börn. Nágrannakona sá hvernig var komið fyrir okkur og tók okkur að sér. En svo urðum við byrði á hana og hennar fjölskyldu svo hún hafði samband við yfirvöld og lét vita af aðstæðum okkar," rifjar Mónika upp og í kjölfarið var farið með systurnar í SOS barnaþorpið í Mzuzu þar sem þær eignuðustu heimili og ástríka fjölskyldu.
Man ekki eftir foreldrum sínum
Í mörgum tilfellum tekur það börn nokkurn tíma að aðlagast nýjum aðstæðum en Mónika segir svo ekki hafa verið í sínu tilfelli. Hún var það ung þegar foreldrar hennar létust að hún mundi ekki eftir þeim. „Ég eignaðist frábæra SOS-móður. Mér fannst ég strax vera komin á stað sem ég tilheyrði og það mynduðust strax góð tengsl milli mín og SOS mömmunnar." Fyrstu minningar Móniku frá komunni í barnaþorpið eru af glöðum börnum sem komu hlaupandi til að bjóða systurnar velkomnar.
Líf mitt í dag er betra, kannski ekki alveg frábært, en miklu betra. Mónika
Er háskólamenntaður heilbrigðisfræðingur
Mónika hefur lokið háskólanámi í heilbrigðisfræði og starfar sem félagsráðgjafi hjá SOS Barnaþorpunum í Ngabu. Þar er hún m.a. í starfsteyminu í fjölskyldueflingu SOS og hjálpar fátækum barnafjölskyldum í erfiðum og viðkvæmum aðstæðum. Í Ngabu er einmitt fjölskyldueflingin sem SOS á Íslandi ber ábyrgð á. Mónika ætlar að mennta sig enn frekar í heilbrigðisfræðinni og vill bæta aðstæður fjölskyldna í heimalandinu.
Mónika er 27 ára móðir í dag með son á þriðja aldursári auk þess sem hún aðstoðar systur sína með ungan son hennar. Það er greinilegt að Mónika er með hjarta úr gulli því hún hjálpar fleiri ættingjum meira en efni hennar leyfa. „Líf mitt í dag er betra, kannski ekki alveg frábært, en miklu betra."
Þið eruð að fjárfesta í nokkru sem er stórkostlegt. Skilaboð Móniku til Íslendinga
Skilaboð Móniku til Íslendinga
Í Malaví eru fjögur SOS barnaþorp og alls 160 börn í þeim eiga SOS-foreldra á Íslandi. Mónika vill þakka þeim fjölmörgu Íslendingum sem styrkja starf SOS Barnaþorpanna í Malaví, ekki aðeins SOS-foreldrunum heldur einnig SOS-fjölskylduvinum sem styrkja fjölskyldueflinguna.
„Ég vil þakka Íslendingum fyrir velviljann. Ég vil líka hvetja fleiri til að gera slíkt hið sama og fullvissa ykkur um að það er ekki til einskis. Þið eruð að fjárfesta í nokkru sem er stórkostlegt. Þessi börn væru ekki að fá þessi tækifæri ef ekki væri fyrir barnaþorpin. Sum af þeim voru yfirgefin og þau væru ekki hér án fólksins sem vill hjálpa. Þau færu ekki í skóla, fengju ekki góðan mat að borða eða þennan notalega stað sem þau geta kallað heimili.
Myndir og upptaka: Jón Ragnar Jónsson.
Viðtal: Hans Steinar Bjarnason
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.