Meena og götuleikhúsið á Indlandi
Meena* er ung stelpa sem býr í litlu samfélagi nálægt Delí á Indlandi. Þar eru gömul kynjaviðmið afar rótgróin. Meena var ekki tilbúin að sætta sig við þær staðalímyndir sem viðurkenndar voru í samfélaginu hennar og tók málin í sínar hendur. Meena skráði sig á barnaþing SOS Barnaþorpanna í Greenfields og komst inn. Þar tók hún þátt í götuleikhúsinu þeirra. Götuleikhúsið er vettvangur fyrir ungmenni til að hafa áhrif á samfélagið sitt og láta rödd sína heyrast.
Innblástur úr eigin lífi
Meena var mjög feimin þegar hún hóf þátttöku á barnaþinginu en sjálfstraustið jókst og feimnin hvarf þegar hún tók þátt í götuleikhúsinu. Meena skrifaði sjálf handrit að leikritinu sem sjá má í myndbandinu. Hún sótti innblástur í eigið líf og hvernig það væri að búa í hverfinu, þar sem ekki þótti viðeigandi að stelpur gengju í skóla. Foreldrar sendu frekar drengi sína í skóla. Meena og systir hennar urðu að skotspóni í hverfinu vegna skólagöngu sinnar. Nágrannakonurnar gerðu grín að móður þeirra og sögðu að hún myndi aldrei gifta dætur sínar.
„Svæðið sem ég bý á er mjög íhaldssamt, ef stelpa klæðist gallabuxum í stað hefðbundins klæðnaðar (salwar kurta) eða ræðir við strák, byrjar allt hverfið að dreifa sögusögnum um hana. Flestar stelpur á mínum aldri vilja bara flýja þetta hverfi,“ segir Meena.
Leiðtogaþjálfun barna og ungmenna
Barnaþingið eru nefndir eða ráð sem stofnuð voru af SOS Barnaþorpunum til að byggja upp leiðtogahæfileika barna. Hóparnir koma reglulega saman og ræða áhyggjuefni skólans, samfélagsins og þeirra sjálfra. „Barnaþingið gefur unga fólkinu stað til að tjá áhyggjur sínar og um leið koma með tillögur að lausnum,“ segir Monica, leiðbeinandi hjá SOS Barnaþorpunum á Indlandi sem hefur nú unnið með barnaþingum og götuleikhópum í rúman áratug.
Í götuleikhúsinu fékk Meena vettvang til að vaxa og rödd hennar varð sífellt sterkari. „Ég lærði að tala við aðra af virðingu og koma sjónarmiðum mínum á framfæri án þess að vera feimin,“ segir Meena. „Þegar öll börnin í hverfinu komu saman og ræddu málin fannst okkur við geta breytt því sem okkur líkaði ekki í samfélaginu okkar. Þegar við komum saman þá erum við sterkari.“ Í gegnum götuleikhúsið taka ungmennin fyrir ýmis vandamál sem hverfið glímir við eins og barnavinnu, áfengissýki og ólæsi.
„Þegar við komum fram þá eru margir sem hunsa okkur. En þrátt fyrir það þá eru kannski tveir til þrír sem meðtaka boðskapinn okkar á hverri sýningu og í hvert skipti sem við endurtökum skilaboðin þá fara fleiri og fleiri í samfélaginu að skilja þau betur,“ útskýrir Meena um upplifun sína af því að koma fram í hverfinu sínu.
Fjölskylda Meenu lítur nú á hana sem sjálfsörugga stúlku sem fer út og leysir vandamál og er fær um að eiga samskipti við umheiminn. Það er mjög óvenjulegt fyrir unglingsstúlku í hennar samfélagi.
Mikilvægt að raddir barna heyrist
Í gegnum verkefni fjölskyldueflingar SOS Barnaþorpanna hafa nú rúmlega 35.000 börn og ungmenni á Indlandi tekið þátt í barnaþingunum og götuleikhópunum.
„Með tilkomu barnaþinganna hafa börn og ungmenni verið gerð að talsmönnum síns samfélags víða um Indland,“ segir Monica hjá SOS Barnaþorpunum. „Sum brýnustu viðfangsefnin sem við höfum unnið að í öllum áætlunum okkar eru málefni sem börnin sjálf hafa miklar áhyggjur af. Menntun stúlkna, heimilisofbeldi og áfengissýki eru áhyggjur sem börn víðs vegar um Indland nefna endurtekið.“ Það skiptir máli að hafa börn og ungmenni með í umræðunni og að raddir þeirra fái að heyrast. „Það eru margar breytingar sem auðveldara er að framkvæma þegar ungt fólk er í fararbroddi,“ bætir hún við.
* Nafni Meenu hefur verið breytt til að gæta persónuverndar.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.