Missti alla fjölskylduna í jarðskjálftanum
Laugardagurinn 25. apríl síðastliðinn átti að vera gleðilegur á heimili Ushu í Bhaktapur í Nepal. Stórfjölskyldan hittist og ætlaði að borða saman. Mikið var hlegið og börnin léku sér saman. Skyndilega heyrðust miklir skruðningar og jörðin skalf verulega. Margar byggingar jöfnuðust við jörðu, þar á meðal heimilið hennar Ushu sem er aðeins tíu ára.
Foreldrar Ushu, systkini og flestir ættingjar létust þegar húsið hrundi. Usha var úti í garði þegar skjálftinn reið yfir og því lifði hún af.
Stuttu eftir skjálftann var farið með Ushu í neyðarskýli SOS Barnaþorpanna og fljótlega eftir það eignaðist hún nýtt heimili í SOS Barnaþorpinu í Sanothimi.
„Ég man vel eftir jarðskjálftanum. Ég var úti að leika með eldri systur minni þegar jörðin byrjaði skyndilega að skjálfa. Ég heyrði öskrin innan úr húsinu sem hrundi svo stuttu síðar. Við vorum það nálægt byggingunni að við lentum undir rústunum. Ég komst þó sjálf út en systir mín ekki. Ég reyndi að finna hana en þegar loksins tókst að grafa hana upp var hún dáin,“ segir Usha. Hún talar rólega en sorgin skín í augum hennar.
Nú hefur Usha búið í barnaþorpinu í tæpt hálft ár þar sem hún aðlagast lífinu vel. Hún byrjaði í nýjum skóla í haust og hefur einstaklega gaman af náminu. „Mér finnst rosalega gaman í skólanum en uppáhalds fagið mitt er nepalska,“ segir hún glaðleg.
Usha eignaðist nýja fjölskyldu í barnaþorpinu sem hefur hjálpað henni mikið að takast á við sorgina. Fyrstu dagarnir eru yfirleitt erfiðir fyrir SOS börn og var Usha engin undantekning. Hún kom þó öllum að óvörum fyrsta kvöldið þegar hún spurði SOS móður sína hvort hún mætti sofa í rúminu hennar þar sem henni þótti það öruggast.
„Mamma er yndisleg kona sem hefur hjálpað mér mikið. Þá á ég yndisleg systkini og sum þeirra misstu foreldra sína í jarðskjálftanum eins og ég. En hér líður mér vel,“ segir Usha að lokum.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.