Munaðarlaus en útskrifaðist úr Harvard
Eftir fyrrum SOS-barn, Gebre-Egziabher Gebre
Ég fæddist árið 1984 í Eþíópíu. Nokkrum mánuðum síðar var ég orðinn munaðarlaus. Báðir foreldrar mínir dóu í mestu hungursneyð í sögu Eþíópíu.
Gríðarlegur fjöldi barna varð munaðarlaus í hungursneyðinni og átti enga að. Hefðbundin munaðarleysingjaheimili voru yfirfull.
Eftir að foreldrar mínir dóu reyndi afi að annast okkur systkinin. Hann var hins vegar of veikur og fátækur til að mæta þörfum okkar og sem betur fer gerði hann sér grein fyrir þessum takmörkunum sínum.
Afi fann SOS barnaþorp
Eftir nokkra leit fann afi hentugt úrræði fyrir mig og bróður minn. Það var SOS Barnaþorp í bænum Mekelle. Ég var bara fimm mánaða þegar ég flutti þangað.
Ég var yngstur 16 SOS-systkina sem bjuggu saman í húsi. Hin börnin höfðu líka misst foreldra sína og áttu engan að sem gat annast þau. SOS Barnaþorpin ákváðu að fjölga börnum í hverri fjölskyldu vegna gríðarlegrar fjölgunar munaðarlausra barna á þessum tíma. Í SOS barnaþorpunum um allan heim eru að jafnaði um átta börn í hverri fjölskyldu.
Stóra tækifærið
Þegar ég var 13 ára bauðst mér að fara í mjög góðan SOS skóla í Gana. Skólinn tekur við nemendum úr SOS barnaþorpum í Afríku sem sýnt hafa framúrskarandi árangur. Mörg þeirra ungmenna sem útskrifast úr skólanum fara til Evrópu og Bandaríkjanna í háskólanám.
Meðan ég var í skólanum fékk ég mikinn áhuga á stærðfræði og vísindum. Ég lagði mig allan fram og fékk skólastyrk í Harvard háskólanum í Bandaríkjunum. Þaðan útskrifaðist ég svo með gráðu í hagfræði og stærðfræði árið 2008. Ég bauð SOS-móður minni til Bandaríkjanna svo hún gæti verið viðstödd útskrift mína úr Harvard. Ég hef aldrei verið stoltari en þá vegna þess að þarna fékk hún séð með eigin augum hverju óendanlegur stuðningur hennar hafði komið til leiðar.
Stundar nú viðskipti
Þó svo að ég búi þúsundum kílómetra frá heimili mínu í Eþíópíu er ég í góðu sambandi við SOS-móður mína og barnaþorpið. Raunar er ég styrktarforeldri einnar stúlku í sama barnaþorpi og ég ólst upp í.
Það merkilega við mína sögu er að hún er bara ein af mörgum. Í dag búa um 66.000 börn í SOS Barnaþorpum í yfir 100 löndum. Þessi börn voru, eins og ég sjálfur, án foreldra og fengu nýja fjölskyldu í barnaþorpi. Og ef við hefðum ekki fengið heimili, umönnun og stöðugleika hjá SOS hefðum við e.t.v. endað á götunni eða lent í einhverju enn verra.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.