Ólst upp í SOS barnaþorpi en býr á Íslandi
Ekkert SOS barnaþorp er á Íslandi svo það þykir til tíðinda að hér á landi er búsett kona sem ólst upp í barnaþorpi. Mari Järsk, 33 ára, hefur búið á Íslandi undanfarin 15 ár en hún ólst upp í SOS barnaþorpi í höfuðborg Eistlands, Tallinn.
„Foreldrar mínir voru alkóhólistar og einhvern veginn fréttist að það voru sjö börn uppi í sveit sem enginn var að hugsa um,“ sagði Mari í viðtali við fréttablað SOS í október 2018 og við endurbirtum nú uppfært hér.
Við urðum ekki vinkonur
Mari segir það hafa verið mikil viðbrigði fyrir sjö ára stúlku að flytja úr umhverfi foreldra sinna í barnaþorpið. Hún segir SOS móður sína hafa verið full stranga fyrir sinn smekk og þær ekki hafa orðið vinkonur fyrr en eftir að Mari flutti úr barnaþorpinu til Íslands.
„Við urðum ekki vinkonur fyrr en ég flutti til Íslands og það var komin fjarlægð á milli okkar. Þá fórum við að bera virðingu fyrir hvorri annarri.“
Mari er mjög hreinskilin í viðtalinu og talar opinskátt um sína upplifun. Hún var 7 ára þegar hún og sex systkini hennar voru tekin af foreldrum sínum árið 1995. Þau voru þá á aldrinum eins til fimmtán ára og fengu öll nýtt heimili í SOS barnaþorpinu í Keila sem þá var nýopnað.
Mari segir að mörg börn í þorpinu hafi átt mjög erfitt og hún efast um að þau muni nokkurn tímann ná sér að fullu andlega enda koma sum börn úr hræðilegum aðstæðum áður en þau ná í öryggið í barnaþorpin.
Hún þurfti að lifa með þessar tilfinningar allt sitt líf að hafa látið frá sér sjö börn sem hún fæddi sjálf. Mari um blóðmóður sína
Pabbi að deyja úr samviskubiti
Samband Mari við blóðforeldra sína var ekki mikið en þó kom fyrir að þau heimsóttu börnin í þorpið fyrir tilstuðlan SOS móður Mari. Hún útskýrði fyrir börnunum að foreldrar þeirra glímdu einfaldlega við erfiðan sjúkdóm. Mari segir að pabbi sinn hafi verið þjakaður af samviskubiti.
„Þetta er rosalega magnað. Þú þurftir ekki annað en að horfa á hann til að sjá að hann var að deyja úr samviskubiti. Honum leið illa og fannst hann ekki eiga skilið að hitta okkur. Hins vegar fannst mér alltaf eins og mömmu hafi verið skítsama en ég held að hún hafi verið í afneitun. Ég held að henni hafi ekkert verið sama. Hún þurfti að lifa með þessar tilfinningar allt sitt líf að hafa látið sjö börn frá sér sem hún fæddi sjálf.“ Báðir blóðforeldrar Mari eru nú látnir. Faðir hennar lést sumarið 2014 en móðir hennar árið 2007.
Í heimsókn til styrktarforeldris á Íslandi
Mari fluttist til Íslands árið 2005 þegar hún var á átjánda aldursári. SOS-styrktarforeldri hennar hér á landi bauð henni í heimsókn.
„Dóttir hans hafði greinst með MS-sjúkdóminn og hann vildi fá mig til að hjálpa henni. Þetta átti bara að vera í hálft ár en nú eru þetta orðin 13 ár.“ segir Mari og hlær. Hún fór að vinna á leikskóla í Hafnarfirði þar sem dóttir mannsins var leikskólastjóri.
Hún fór svo í Flensborgarskóla og útskrifaðist þaðan. „Þá fór ég að eignast vini og lífið á Íslandi byrjaði.“
Björgvin Halldórs, Friðrik Ómar og íslenskt lambakjöt
Mari segir að hún hafi verið fljót að læra íslensku og það hafi aldrei verið vandamál. Hún er núna að safna sér fyrir íbúð og er í fjórum störfum. Hún hefur tekið ástfóstri við íslenska tónlist og íslenskan mat. Uppáhaldstónlistarmenn hennar eru Björgvin Halldórsson og Friðrik Ómar Hjörleifsson og íslenskt lambakjöt er það besta sem hún borðar.
Ranghugmyndir um barnaþorp
Mari segir að margir hafi ranghugmyndir um börn sem alast upp í SOS barnaþorpum. Þær lýsa sér þannig að margir votti henni samúð þegar hún segir frá uppeldi sínu í barnaþorpinu. Það segir hún vera algeran óþarfa.
„Maður eignast gott líf með því að fara í SOS barnaþorp. Þar fær maður tækifæri til að raunverulega gera eitthvað með líf sitt.“ Mari segir að öllum systkinum hennar gangi vel í lífinu nema elsta bróður hennar sem hefur um árabil glímt við vímuefnavandamál.
Mari sér framtíðina fyrir sér hér á Íslandi og á sér þann draum að stofna hér fjölskyldu sem hafi verið fjarlægur draumur hingað til.
„Ég elska Ísland,“ segir þessi brosmilda, hressa og duglega unga kona.
Við þetta má svo bæta að hér er hægt að nálgast annað viðtal við Mari sem tekið var við hana fyrir fréttablað SOS árið 2015. (pdf - bls. 12-13)
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.