„Pínlega" feimin en varð sjónvarpsfréttakona
Shruti er ein af fjölmörgum stúlkum á Indlandi sem ungar að árum missa foreldra sína af hinum ýmsu ástæðum. Hún var ungabarn þegar hún flutti í SOS barnaþorpið í Bhimtal þar sem hún ólst upp á ástríku heimili hjá SOS mömmu sinni og systkinum. Í barnaþorpinu búa fimm börn sem eiga SOS-foreldra á Íslandi. Shruti var alla sína æsku óframfærin og feimin en í dag er hún 22 ára fréttakona í sjónvarpi og stefnir á enn meiri frama á því sviði.
Hér að ofan má sjá Shruti lesa morgunfréttir á sjónvarpsstöðinni News 31.
„Hún er eins og stórstjarna á sjónvarpsskjánum. Mér finnst alveg ótrúlegt að þetta sé sama feimna litla Shruti, dóttir mín sem var svo pínlega feimin á uppvaxtarárunum," segir stolt SOS mamma Shruti sem hefur náð skjótum frama á fréttastofunni. Hún fer á vettvang til að gera eigin fréttir og er líka farin að lesa morgunfréttirnar á skjánum.
Braust út úr skelinni
Shruti þurfti að hafa mikið fyrir því að brjótast út úr skelinni á yngri árum í barnaþorpinu og sótti tómstundir utan skóla til að bæta sig. „Ég er með innhverfa skapgerð (introvert) svo það reyndist mér erfitt að brjóta ísinn í samskiptum við ókunnugt fólk. Mér tókst að vinna bug á þessu í barnaþorpinu og það hefur líka gefið mér mikið að tala við heimildafólk þegar ég fer á vettvang til að vinna fréttir," segir Shruti.
Erfitt að yfirgefa barnaþorpið
Enginn háskóli er nálægt barnaþorpinu sem býður upp á það nám sem Shruti þarf að sækja til að eltast við fréttamennskudrauminn. Hún þurfti því að flytja 500 km í burtu til Jaipur þar sem hún hafði fengið inngöngu í háskóla og þurfti í fyrsta sinn á lífsleiðinni að vera sjálfstæð. Þetta var stórt skref út fyrir þægindarammann hjá unglingsstúlkunni.
Mér var reglulega sagt að þegar ég yrði fullorðin þyrfti ég að vera sterk og flytja langt í burtu til að sækja mér meiri menntun. Shruti
„SOS mamma mín og fólkið í barnaþorpinu hjálpuðu mér að búa mig andlega undir það að standa á eigin fótum. Mér var reglulega sagt að þegar ég yrði fullorðin þyrfti ég að vera sterk og flytja langt í burtu til að sækja mér meiri menntun. Það gerðist því eiginlega að sjálfu sér að ég reyndist tilbúin þegar á hólminn var komið," segir Shruti sem gat nú allt í einu ekki heimsótt fjölskyldu sína í barnaþorpið þegar hún vildi.
Ég hafði aldrei áður verið án leiðsagnar eldra og reyndara fólks eða án SOS mömmu minnar. Shruti
„Það var mjög erfitt að yfirgefa heimili mitt í barnaþorpinu í fyrsta sinn. Ég hafði aldrei áður verið án leiðsagnar eldra og reyndara fólks eða án SOS mömmu minnar og systkina. Allt í einu voru þau ekki hjá mér og allt í kringum mig var nýtt. Það tók mig smá tíma að aðlagast því," segir Shruti sem eignaðist nýja vini og hóf að byggja upp nýtt samfélagsnet.
Starfsnám á svæðissjónvarpsstöð
Eftir erfiða byrjun öðlaðist Shruti meiri styrk og sjálfstraust í litlum skrefum þangað til henni leið vel með að standa alveg á eigin fótum. Í lokafjórðungi fyrstu háskólagráðu sinnar fékk Shruti lærlingsstöðu á svæðissjónvarpsstöð nálægt Bhimtal svo hún gat loks farið reglulega í helgarheimsóknir til fjölskyldu sinnar í barnaþorpinu.
Stefnir á eina af stóru stöðvunum
Shruti stóð sig með mikilli prýði í starfsnáminu á svæðisstöðinni og hún var fljót að vinna sig upp. Fljótlega var hún farin að gera sínar eigin fréttir og lesa morgunfréttir á skjánum. Þegar starfsnáminu lýkur ætlar Shruti í meistaranám í blaðamennsku í höfuðborginni Delí og draumur hennar er að verða sjónvarpsfréttakona á einni af stóru sjónvarpsstöðvunum á Indlandi.
Ég er á góðri leið með að uppfylla framtíðardrauminn minn eins og uppáhalds sjónvarpsfréttakonan mín. Shruti
Ætlar að gera eins og fyrirmynd sín
Shruti kveðst eiga SOS-fjölskyldu sinni að þakka hversu langt hún er komin nú þegar. Viðbúið er að samkeppnin verði hörð fyrir hana að komast í meistaranámið en hún er sannfærð um að þessi draumur verði að veruleika. „Ég get sko sagt ykkur að ég er mjög spennt því ég er á góðri leið með að uppfylla framtíðardrauminn minn eins og uppáhalds sjónvarpsfréttakonan mín, Palki Sharma Upadhyay á WION TV.
Viðtal: Pearl Sandhu
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.