Rúrik: Þessi ferð gerði mig eiginlega orðlausan
Rúrik heimsótti styrktarbarn sitt til Malaví
Rúrik Gíslason er einn af velgjörðasendiherrum SOS á Íslandi og hann hefur frá árinu 2018 verið SOS-foreldri. Rúrik styrkir 14 ára dreng sem heitir Blessings í SOS barnaþorpinu í Ngabu í Malaví og í janúar á þessu ári fór Rúrik utan að heimsækja drenginn og kynnast aðstæðum fólks í Malaví sem er eitt af fátækustu löndum heims.
Rúrik er í forsíðuviðtali nýjasta fréttablaðs SOS sem kom út í júní. Þú getur séð öll fréttablöð SOS rafrænt hér.
Nú þegar ég er búinn að heimsækja Blessings þá er staðan gerbreytt. Núna sé ég eiginlega eftir því að hafa ekki sett mig í samband við hann fyrr. Rúrik Gíslason
Nú þekki ég hann
Það er skammt liðið frá flugtaki frá Lilongve, höfuðborg Malaví, þegar undirritaður og Rúrik rifja ferðina upp yfir kaffibolla í háloftunum. Rúrik var búinn að styrkja Blessings í fjögur ár þegar kom að heimsókninni og hann vissi sitthvað um drenginn. M.a. að helstu áhugamál hans væri fótbolti og dans svo ljóst var að þeir áttu eitthvað sameiginlegt. SOS foreldrar fá tvö bréf á ári með upplýsingum um styrktarbörnin sín og eina mynd á ári.
„Ég les bréfin í gegn en ég verð að viðurkenna að það var mér frekar fjarlægt að ég væri að styrkja barn í Malaví. Nú þegar ég er búinn að heimsækja Blessings þá er staðan gerbreytt. Núna sé ég eiginlega eftir því að hafa ekki sett mig í samband við hann fyrr. Það er eitt að skrá sig sem styrktarforeldri en ég hvet þá sem það gera að lesa bréfin og kynnast börnunum.” Rúrik hlakkar nú sérstaklega til að fá næstu bréf með fréttum af Blessings. „Engin spurning. Nú þekki ég Blessings og hef hitt hann.”
Faðir Blessings myrtur
Blessings flutti í barnaþorpið þegar hann var 6 ára eftir að faðir hans var myrtur. Ekki er vitað hvar móðir hans er niðurkomin en Blessings á ástríka fjölskyldu í barnaþorpinu. Það fékk talsvert á Rúrik að heyra um örlög föður Blessings. „Það er alveg hræðilegt, sorglegt. Því miður eru mörg svona sorgleg dæmi sem við heyrum af. Öll þessi börn eiga ólíkan bakgrunn sem hefur mótað ólíka karaktera. Það er eitt af því sem mér fannst standa upp úr. Að kynnast mörgum ólíkum börnum.”
Vonin er svo mikilvæg
Það fór vel á með Rúrik og Blessings þó þeir hafi báðir verið dálítið feimnir í upphafi. „Við náðum vel saman. Mér fannst hann uppveðrast eftir því sem leið á heimsóknina og ég skynjaði svo mikla von hjá honum. Eitt sem ég tók sérstaklega eftir í heimsóknum til fólks sem hafði t.d. nýlega fengið vatnsbrunn nálægt heimili sínu eða bætta hreinlætisaðstöðu er hvernig það gaf fólkinu von. Það hafði m.a. þau áhrif að fólkið fór að mæta betur til vinnu eða skóla þegar aðstæður þess voru bættar. Ég skynjaði þetta hjá Blessings þegar ég spilaði fótbolta með honum. Ég fékk á tilfinninguna að ég hefði verið að gefa honum smá von. Ég reyndi bara að hvetja hann eins mikið og ég gat. Hann ætlar sér að verða læknir í framtíðinni. Ég held það sé mjög algengt hjá börnum í þessu landi að þau missa trú á markmiðum sínum því tækifærin eru af skornum skammti. Þessi börn þurfa að geta trúað því að draumar þeirra rætist.”
Ég held það sé mjög algengt hjá börnum í þessu landi að þau missa trú á markmiðum sínum því tækifærin eru af skornum skammti. Rúrik Gíslason
Hætta að líta á sig sem manneskju
Rúrik segir að ferðin hafi að vissu leyti breytt sýn sinni á lífið. „Fólkið þarna er á öðrum hraða en við heima á Íslandi. Við erum alltaf á öðru hundraðinu, að stressa okkur og ætla okkur of mikið. Við erum líka að pirra okkur á hlutum sem í raun skipta engu máli í stóra samhenginu.”
Þegar þú lifir í sárri fátækt hættir fólk að líta á þig sem manneskju. Að lokum hættirðu sjálfur að líta á þig sem manneskju og gefst upp. Þessi fleygu orð sagði framkvæmdastjóri SOS barnaþorpsins í Ngabu. Skammt frá barnaþorpinu er íbúabyggð þar sem SOS Barnaþorpin á Íslandi fjármagna fjölskyldueflingu sem Rúrik var sérstaklega heillaður af.
SOS rekur 620 slík forvarnarverkefni um allan heim. Markmið þeirra er að hjálpa illa stöddum barnafjölskyldum á fátækustu svæðum heims til sjálfbærni og sjálfstæðis. Fjölskylduefling SOS verður til þess að börnin fá grunnþörfum sínum mætt svo þau verði ekki vanrækt og yfirgefin. Þessi verkefni hafa forðað fjölmörgum illa stöddum barnafjölskyldum frá sundrungu.
„Það er mjög þarft verkefni að hjálpa þessum fjölskyldum. Það var alveg ótrúleg upplifun að heimsækja þetta fátæka svæði í Ngabu. Það sem mér fannst magnaðast af öllu er að sama hversu bágt fólki átt, þá var alltaf gleði í andlitum. Kannski vita þau ekki hvers þau fara á mis við í lífsgæðum. Það er ótrúlegt að sjá við hvaða aðstæður fólk býr þarna. T.d. að þurfa að ganga marga kílómetra á dag eftir vatni. Ég prófaði að bera vatnið sem konurnar bera á höfðinu og það var ekkert grín. Og ég er hraustur karlmaður. Fjölskyldueflingin er mjög flott verkefni,” segir Rúrik.
Menningarsjokk
Eins og áður segir er Malaví eitt af fátækustu löndum heims, í 172. sæti af 182 á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna. Rúrik var að koma til Afríku í fyrsta sinn og hann viðurkennir að þessi heimsókn hafi komið honum gjörsamlega í opna skjöldu.
„Menningarsjokkið var mikið og það byrjaði eiginlega bara strax á flugvellinum. Flugstöðin í höfuðborginni Lilongve var eins og hún væri 100 ára gömul. Það var líka mjög áhugavert að keyra inn í borgina og sjá fólk við veginn að reyna að sjá fyrir sér með því að selja ýmsan varning, hvort sem það voru ávextir eða gömul dekk. Ég get samt ekki lýst menningarsjokkinu í orðum. Ég hef séð myndir frá Afríku en að koma þangað og sjá aðstæðurnar sem fólk býr við gerði mig orðlausan. Þessi ferð gerði mig eiginlega orðlausan,” segir Rúrik sem vill að lokum lýsa þakklæti sínu fyrir að vera velgjörðasendiherra SOS og fá tækifæri til að kynnast starfi samtakanna á þennan hátt.
Sjónvarpsþáttur um heimsóknina
Með í för til Malaví var mágur Rúriks, Jóhannes Ásbjörnsson, sem einnig er SOS-foreldri 5 ára stúlku í sama barnaþorpi. Tilgangur ferðarinnar var að taka upp sjónvarpsþátt um heimsóknina og er hann aðgengilegur í Sjónvarpi Símans. Kvikmyndatökur voru í höndum Jóns Ragnars Jónssonar, JonfromIceland og vilja SOS Barnaþorpin færa þeim öllum innilegt þakklæti fyrir þeirra óeigingjarna framlag í þágu góðs málefnis.
Viðtal: Hans Steinar Bjarnason
Ljósmyndir: Jón Ragnar Jónsson, JonfromIceland
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.