Sagan af Flóttabangsanum
Sögurnar sem við birtum í þessum flokki heimasíðunnar eru alltaf sannar sögur af fólki - en hér gerum við eina undantekningu. Sagan af Flóttabangsanum gæti þó allt eins verið sönn enda lýsir hún aðstæðum úr daglegum raunveruleika flóttafólks. Alþjóðlegi bangsadagurinn er 27. október.
Flóttabangsinn
Smásaga eftir Emblu Waage, ungmennaráði SOS Barnaþorpanna.
Allir bangsar vilja gott heimili. Það vill svo skemmtilega til að þessi bangsi átti allt sem hugurinn girntist. Hann átti yndislega vinkonu sem lék sér með hann alla eftirmiðdaga. Á meðan vinkona hans lærði í skólanum gat hann leikið sér með öðrum mjúkum böngsum og leikföngum. Þetta eitt og sér væri nóg fyrir hvaða bangsa sem er; jafnvel þá allra alvarlegustu. En auk þess sofnaði hann í hlýju fangi vinkonu sinnar á hverju kvöldi. Það eina sem bangsinn hafði rænu til að óska sér í viðbót var að vinkona hans gæti verið hjá honum allan daginn. Þótt ótrúlegt virðist, rættist þessi ósk. Þó alls ekki eins og hann vildi.
Óttinn greip um sig
Rólega og bjarta borgin þeirra breyttist hratt. Torgin iðuðu af ótta og bangsarnir skulfu líka; því þeir vissu að eitthvað slæmt var í aðsigi. Í fyrstu knúsaði vinkonan hann fastar á kvöldin. Það var notalegt fyrir bangsann. Nokkrum dögum síðar urðu ógurleg læti og sterkur skjálfti hristi diska af hillum. Bangsarnir og leikföngin söfnuðust saman. Þau þurftu að passa hvert annað. Eftir skjálftann hætti vinkonan að yfirgefa bangsann á daginn; hún fór aldrei í skólann. Bangsinn fagnaði þessu í skamma stund. Allt þar til hann fann hve skelkuð og sorgmædd vinkona hans var orðin. Hann reyndi af bestu getu að hugga hana, en án árangurs.
Urðu að flýja
Nú gátu þau ekki lengur leikið sér á kvöldin. Veturinn nálgaðist óðfluga en þau gátu ekki kveikt nein ljós. Fjölskyldan fór að sofa saman svo þau gætu haldið í sér hita. Vinkona bangsans suðaði um að fara út að leika en gafst loks upp. Einn daginn varð vinkonan svo leið að hún svaf ekkert alla nóttina. Pabbi hennar hafði farið út og aldrei komið aftur. Eftir það pakkaði fjölskyldan í litla bakpoka og hélt af stað. Ekkert þeirra vildi raunverulega yfirgefa fallegu borgina þeirra, en nú taldist hún ekki lengur til borga.
Lagt af stað í langa, kalda ferð
Bangsinn hafði örfáum sinnum yfirgefið íbúðina. Þá höfðu tært loft og hlátrasköll mætt honum. Hann gat ekki sagt að umhverfið væri enn hið sama. Mörg húsanna höfðu leysts upp í mylsnur sem lágu í hrúgum líkt og molnar marmarakökur. Fáir voru á ferli og ekki hægt að segja að gleði lægi í loftinu. Vinkonan átti tvö lítil systkini sem héldu í sitt hvora hönd mömmu sinnar. Því þurfti vinkonan að láta sér nægja hönd bangsans. Ferðin var ósköp löng, þreytandi og köld. Bangsinn skildi lítið í ferðinni, í gegnum borgir, sveitir, nætur, kulda og furðuleg farartæki. Þetta var allt ósköp ruglingslegt.
Endalaus bið
Allar þessar nætur fóru misvel í fjölskylduna. Biðin eftir bát virtist endalaus en hún var ekkert miðað við biðina um borð. Einu sinni fór mamma að hósta, síðan varð það tvisvar og þrisvar. Hóstinn hélt áfram að valda fólki áhyggjum í bátnum. Það var svo þröngt að bangsinn komst ekki einu sinni þægilega fyrir; hann sem var svo lítill og þægur. Ferðin var bæði löng og ströng. Hún reyndi á alla um borð, meira en bangsann hafði órað fyrir. Þó náðu þau á leiðarenda, að minnsta kosti flest þeirra.
Mamma vaknaði ekki
Vinkonu bangsans var ákaflega létt þegar fætur hennar snertu jörðina aftur. Systkini hennar og aðrir ferðalangar flýttu sér úr bátnum eins og hann myndi sjálfkrafa snúa aftur út á haf. Loks tæmdist þó báturinn. Eina manneskjan sem enn sat í bátnum var mamma þeirra, sofandi. Vinkonan hljóp að vekja hana. Fyrst kallaði hún á mömmu sína, síðan ýtti hún við henni og skvetti vatni á andlit hennar. Mamma þeirra svaf svo fast að ekkert gat vakið hana. Skiljanlega, hún hafði verið svo veik fyrir ferðina.
33 milljónir barna á flótta
Árið 2019 voru samtals 272 milljónir flóttamanna og hælisleitenda hraktar á brott frá eigin löndum með valdi eða ofbeldi. Af þeim voru 33 milljónir börn (“Child Migration.” UNICEF DATA, 7 Aug. 2020). Mörg þeirra hafa þegar upplifað óhugsanlega hluti. Sum jafnvel eftirlitslaus. Til að þessi börn eigi tækifæri á framtíð þurfa þau stuðning. Flóttabangsinn er verkefni á vegum SOS Barnaþorpanna og rennur allur ágóði af sölu á bangsanum til styrktar flóttabarna sem koma til Grikklands.
Tilgangurinn er að hjálpa flóttabörnunum að aðlagast nýjum aðstæðum og veita þeim tækifæri á menntun og betra lífi. Flóttabangsinn er til sölu í vefverslun SOS
Hægt er að kaupa Flóttabangsann í vefverslun SOS hér.
Allir bangsar vilja gott heimili, rétt eins og við.
Með kaupum á flóttabangsanum hjálpar þú flóttabörnum að aðlagast nýjum aðstæðum og veitir þeim tækifæri á menntun og betra lífi.
Styrkja