SOS sögur 31.ágúst 2017

SOS móðir á eftirlaunum

Þegar maður hittir Iranganie Rawanake í fyrsta sinn sér maður litla konu með fallegt bros. En þegar maður kynnist henni betur sést hve sterk hún er, hjartahlý og orkumikil. Iranganie var fyrsta SOS móðirin í SOS Barnaþorpinu í Piliyandala í Srí Lanka og hefur alið upp 25 börn. Í dag á hún 12 barnabörn.

Iranganie var 33 ára gömul þegar hún flutti í SOS Barnaþorpið. Foreldrar hennar voru báðir fallnir frá og sá hún auglýsingu í dagblaðinu þar sem óskað var eftir SOS mæðrum. Hún fór í viðtal og svo í þjálfun. Eftir nokkra mánuði hóf hún störf sem SOS móðir, fyrst með tvö börn en mest var hún með tíu.

Í dag er Iranganie komin á eftirlaun. „Ég er hamingjusöm í dag og hef lifað góðu lífi,“ segir hún. Fyrir stuttu flutti Iranganie á elliheimili SOS mæðra og viðurkennir að fyrst um sinn hafi hún verið einmanna. „Það var skrýtið að fara frá börnunum mínum og barnabörnum. En þau koma í heimsókn og ég hef eignast margar nýjar vinkonur hér. Svo er ég dugleg að passa barnabörnin þannig að það nóg að gera!“ segir hún hlæjandi.

Sri_Lanka_CV_Piliyandala_Interview-Rawanake-SL_portrait.jpgEn hvað er að frétta af börnunum 25? „Ég er svo stolt af þeim öllum. Einn sonur minn starfar sem verkfræðingur í Kólumbíu, annar sem kennari í Kanada og dóttir mín er í námi í London. Svo eru nokkur sem búa nær mér sem er voða gott,“ segir Iranganie.

Og Iranganie heimsótti dóttur sína Malani til London fyrir stuttu. Malani hafði lengi reynt að fá móður sína til Evrópu og tvisvar reynt að fá ferðaheimild fyrir Iranganie en í bæði skiptin fengið neitun. Í þriðja skiptið gekk það upp og draumurinn varð að veruleika. En hvernig leist Iranganie á Evrópu?

„Þetta var frábært. Ferðalagið var mikil upplifun þar sem ég var ein og þurfti að taka tengiflug í Dúbaí. Ég tók fyrst eftir því hvað allt er hreint í Evrópu og vel skipulagt. Þar eru reglur fyrir allt,“ segir þessi frábæra kona að lokum.

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri framfleytir barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði