SOS sögur 5.desember 2023

Systur nýttu framtíðargjafir SOS-foreldra til að stofna leikskóla

Systur nýttu framtíðargjafir SOS-foreldra til að stofna leikskóla

Þegar tvíburasysturnar Alinafe og Sopani fluttu úr SOS barnaþorpi í Malaví og fóru að standa á eigin fótum kom sér aldeilis vel fyrir þær að eiga framtíðarsjóð sem í höfðu safnast peningagjafir frá styrktarforeldrum þeirra öll uppeldisárin. Þær notuðu hluta sjóðsins til að stofna leikskóla og nýttu menntun sína til að hefja rekstur og hjálpa börnum á heimaslóðum sínum. Starfsemi systranna hefur gengið framar vonum og skapað fleira fólki atvinnu.

Tengdu saman ólíka framtíðardrauma

Alinafe og Sopani eru tvíburasystur sem ólust upp í SOS barnaþorpinu í Mzuzu í Malaví. Þær voru átta ára þegar þær komu í barnaþorpið árið 2002 og eru í dag ábyrgir og traustir einstaklingar. Sopani er með prófgráðu í félagsráðgjöf og Alinafe með gráðu í hótel- og veitingastörfum.

Þrátt fyrir að vera tvíburar voru framtíðardraumar systranna ólíkir en þær fundu þó leið til að tengja þá saman. Alinafe vildi alltaf stofna lítið fyrirtæki, leyfa því að vaxa, lifa stöðugu lífi og ráða annað ungt fólk til starfa á meðan Sopani vildi verða félagsráðgjafi og starfa fyrir hið opinbera. Í þessum ólíku draumum sínum fundu þær þó eitt sameiginlegt, ástríðuna fyrir að hjálpa öðru fólki.

Alinafe og Sopani á skrifstofu sinni í leikskólanum. Alinafe og Sopani á skrifstofu sinni í leikskólanum.

Vildu ráðstafa sjóðnum skynsamlega

Þegar systurnar urðu 23 ára og höfðu báðar lokið námi fluttu þær úr barnaþorpinu aftur á upprunaslóðir sínar í Zomba í suðurhluta landsins. Þó svo að það sé fátækt samfélag fluttu systurnar ekki í neina örbirgð en fyrir þeim lá að taka ákvörðun. Ákvörðun um hvernig þær skyldu verja þeim fjármunum sem safnast höfðu á framtíðarreikningum þeirra systra meðan þær ólust upp í barnaþorpinu. Þetta eru fjárhæðir sem SOS-foreldrar gefa styrktarbörnum sínum þar til þau fara að standa á eigin fótum og flytja úr barnaþorpunum.

„Við íhuguðum lengi hvernig skynsamlegast væri að ráðstafa sjóðnum okkar. Þetta var peningur frá styrktarforeldrum okkar sem var geymdur og ávaxtaður fyrir okkur allan þennan tíma. Ég hef séð ungt fólk eyða svona pening óskynsamlega og við ætluðum sko ekki að gera sömu mistök,“ sagði Sopani og úr varð að þær systur ráðfærðu sig við aðra áður en þær ákváðu sig. Úr varð að þær opnuðu dagvistun fyrir börn í Zomba.

Við tókum eftir því að það voru engar raunverulegar stöðvar sem sinntu börnum á aldrinum tveggja til fimm ára. Alinafe

Undirbúa yngstu börnin fyrir skólagöngu

Alinafe sagðist hafa tekið eftir því að ekki væri vel hugsað um lítil börn í samfélaginu. Hún kannaði síðan hugmyndina um barnagæslu. „Við tókum eftir því að það voru engar raunverulegar stöðvar sem sinntu börnum á aldrinum tveggja til fimm ára. Börnin eru ekki látin gera neitt, þau fara ekki í skóla og missa af mikilvægum þáttum í lífi sínu,“ sagði hún.

Markmið Alinafe var að kenna börnunum undirstöðuatriði í lestri og skrift svo þau geti þróað með sér skólaáhuga frá unga aldri. Hún vonast til að foreldrar sjái fjárfestinguna sem slíkt er í framtíð barnanna. Alinafe sannfærði síðan systur sína, sem er með félagsráðgjafaréttindi, um að ganga til liðs við sig í þessum viðskiptarekstri.

Systurnar fengu strax 40 börn í leikskólann sem þær hafa nefnt „Nýja Eden". Systurnar fengu strax 40 börn í leikskólann sem þær hafa nefnt „Nýja Eden".

Skapa atvinnu fyrir fólk á staðnum

Systurnar lögðu hluta af framtíðarsjóði sínum í stofnun leikskólans og fengu strax 40 börn í skólann sem þær hafa nefnt „Nýja Eden". Þær fá greitt mánaðarlegt gjald fyrir hvert barn sem foreldrar senda til þeirra í dagvistunina. Systurnar hafa ráðið sjö starfsmenn í umönnun barnanna en þær láta ekki staðar numið þar. Á döfinni er að útvíkka starfsemina til náms barna upp í 11 ára aldur vegna þess að svæðið er fjölmennt en fólk skortir hvatningu til að fara í skóla, segir hún. Með það fyrir augum hefur Alinafe skráð sig í meistaranám í þroska barna.

Opnuðu líka hárgreiðslustofu

Metnaður systranna er mikill og þegar leikskólinn var kominn á fullt opnuðu þær líka hárgreiðslustofu og hafa ráðið þangað starfsfólk. Alinafe segir reksturinn mjög arðbæran og aðsóknin á hárgreiðslustofuna er slíkur að þær þurfa að fjölga starfsfólki.

SOS-foreldrar á Íslandi eru mjög duglegir að gefa styrktarbörnum sínum peningagjafir á framtíðarreikning barnanna. Það er gert á einfaldan hátt á Mínum síðum hér á heimasíðunni.

Svo skemmtilega vill til að í þriggja klukkustunda akstursfjarlægð frá Zomba er bærinn Ngabu þar sem SOS á Íslandi er með fjölskyldueflingu.

Sjá einnig: Framtíðarsjóðurinn nýttist til að byggja hús

„Við tókum eftir því að það voru engar raunverulegar stöðvar sem sinntu börnum á aldrinum tveggja til fimm ára," segir Alinafe. „Við tókum eftir því að það voru engar raunverulegar stöðvar sem sinntu börnum á aldrinum tveggja til fimm ára," segir Alinafe.
SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri framfleytir barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði