Takk mamma!
Leo* var fimm ára þegar mamma hans dó. Svo dó pabbi hans stuttu síðar. Leo flutti inn til afa síns og ömmu. Þau gátu hins vegar ekki séð almennilega fyrir drengnum vegna fátæktar og eftir þrjú ár fóru þau að leita að einhverjum sem gæti mætt þörfum drengsins. Árið 2008 fékk Leo svo heimili og SOS-móður í SOS Barnaþorpinu í Fort Portal í Úganda.
Nú er Leo 16 ára og hér segir hann frá þeim áhrifum sem SOS-móðir hans hefur haft á hann.
Takk elsku mamma!
Ég var fórnarlamb sjálfsvorkunnar. Í hvert skipti sem ég hugsaði um raunverulega foreldra mína fór ég að gráta. Mér er sagt að mamma hafi dáið úr alnæmi en enginn veit hvað kom fyrir pabba. Sex mánuðum eftir að ég flutti í barnaþorpið var ég enn þjakaður af sorg. Söknuðurinn var að buga mig. En SOS-móðir mín stóð með mér, huggaði mig, elskaði mig og gaf mér góð ráð.
Innan SOS-fjölskyldu minnar er ég kallaður „uppáhaldið“. Þau segja að ég sé kurteis og traustur. Ég er nokkurs konar fyrirmynd annarra barna í þorpinu og þegar þau vilja ræða við einhvern í trúnaði þá koma þau til mín. Mér finnst gott að vera treyst. Og svo gengur mér líka vel í skólanum, þökk sé mömmu.
Ég er elstur í hópi tíu SOS-systkina og ég hef séð hve mjög hún fórnar sér fyrir okkur öll. Hún er hugrökk og gefst ekki svo auðveldlega upp í mótlæti, jafnvel þegar við börnin erum einum of krefjandi og keppum jafnvel um athygli hennar.
Í lok þessa árs mun ég útskrifast úr skólanum. Ég finn að til mín eru gerðar talsverðar væntingar. Stundum velti ég því fyrir mér hvað muni gerast ef ég stend ekki undir væntingunum. Þá hugga ég mig við það að mamma mín verður alltaf stolt af mér, sama hvernig fer.
Í framtíðinni langar mig að verða bankastjóri. Þeirri stöðu fylgja ekki bara völd og áhrif, heldur einnig traust og heilindi. Einmitt þau gildi sem SOS-móðir mín hefur kennt mér.
Takk elsku mamma fyrir allt sem þú hefur gefið mér. Það er þér að þakka að ég er hér í dag.
*Ekki hans rétta nafn.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.