Trúir alltaf á vonina
Sálfræðingurinn Teresa Ngigi starfar fyrir SOS Barnaþorpin í Sýrlandi. Hún starfaði áður hjá SOS í Síerra Leóne og hefur mikla reynslu af neyðaraðstoð og áfallahjálp. Hún segir að áföll í æsku, hamfarir og stríð hafi gríðarleg áhrif á börn og fjölskyldur þeirra og telur afar mikilvægt að börn fái viðeigandi meðferð sem fyrst eftir áfall.
En hvernig áhrif hafa hamfarir og stríð á börn?
Börn þurfa öryggi og stöðugleika sem ekki er til staðar í hamförum eða stríðum. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir neinu. Þess vegna felst neyðaraðstoð SOS oftar en ekki mikið í tengslamyndun. Að leyfa börnunum að tengjast einhverju aftur. Það getur verið erfitt en með faglegri aðstoð geta börnin unnið úr áföllum og lært að tengjast fólki á ný.
Er mikill munur á meðferð sem börn þurfa á að halda eftir hamfarir og svo eftir stríð?
Já, það er mikill munur á því og við þurfum að vinna á ólíkan máta með þessum hópum. Þegar eitthvað gerist sem veldur viðvarandi ástandi, t.d. stríð eða langvarandi fátækt virðast börn oft aðlagast aðstæðum og finna minna fyrir áfallinu sjálfu en það er að sjálfsögðu ekki gott að þau aðlagist slæmum aðstæðum. Þá koma oft upp vandamál líkt og lærdómsörðugleikar, tengslavandamál, heilsuvandamál og annað. Þegar börn verða fyrir skyndilegum áföllum, eins og hamförum, þurfum við að vinna öðruvísi með þeim þar sem þau hafa ekki aðlagast aðstæðum.
Hversu mikilvægt telur þú það vera að vinna með börnum til langtíma eftir áföll, eins og SOS hefur verið að gera, t.d. í Sýrlandi?
Það er afar mikilvægt. Ef þú byrjar að vinna með barni sem hefur orðið fyrir áfalli og hættir svo, getur þú gert ástandið enn verra. Þá er betra að sleppa því alveg að byrja að vinna með barninu. Meðferðaraðilinn verður að mynda tengsl við barnið og vera traustsins virði.
Mat á ástandi barnsins er líka gríðarlega mikilvægt. Það að meta strax hvaða þarfir barnið (eða sá fullorðni) hefur og byrja að vinna samkvæmt því.
Hafa áföll sambærileg áhrif á ung börn og unglinga?
Nei, alls ekki. Fyrstu ár lífsins stjórnast börn alfarið af tilfinningum og taka ekki rökum. Tilfinningarnar eru því afar mikilvægar á þeim aldri því börnin hafa ekki getu að skilja hvað er að gerast á annan máta.
Þegar barn eldist fer það að skilja betur af hverju hlutir gerast. Ef það kemur flóð, er hægt að útskýra fyrir barninu af hverju það kom á meðan yngra barnið gæti haldið að það væri sér að kenna af einhverjum ástæðum.
Hversu mikilvægt er það að meðhöndla áfall foreldra í neyðaraðstoð?
Það er afar mikilvægt. Þegar að barn hefur orðið fyrir áfalli, þýðir það að foreldrarnir hafa líklegast líka lent í áfalli. Stundum átta foreldrarnir sig ekki einu sinni á andlegri líðan sinni því þau einblína á líðan barnsins. Stundum geta foreldrar hægt á bata barna sinna þó þau ætli sér það alls ekki.
Eftir sjö ára stríð í Sýrlandi, hversu vongóð ertu um að þú getir hjálpað þessum börnum?
Ég trúi alltaf á vonina. En ég er ekki barnaleg og geri mér grein fyrir því að það er langt ferli framundan. Og stríðið er enn í gangi þannig að íbúar verða fyrir áfalli aftur og aftur. Við getum ekki blekkt okkur og sagt að allt verði í lagi innan ákveðins tíma.
Barnvæn svæði SOS hafa skipað stóran sess í neyðaraðstoð SOS Barnaþorpanna í neyðarverkefnum. Hversu mikilvæg eru slík svæði?
Barnvænu svæðin eru frábær. Þar vinnur starfsfólk sem er þjálfað í því að taka á móti börnum sem lent hafa í áföllum. Þarna geta börnin tjáð sig og unnið úr erfiðleikum.
En þetta er líka svæði þar sem börn geta leikið. Þau geta teiknað, sungið, dansað og leikið við önnur börn. Þau fá tækifæri til að vera börn á ný, og það er eitt það mikilvægasta í bataferlinu.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.