Tvíburarnir sem Kalli bjargaði orðnir 10 ára
Karl Jónas Gíslason, eða Kalli eins og hann er nefndur, var svo sannarlega réttur maður á réttum stað þegar hann var á ferð um Suður Ómó í Eþíópíu haustið 2012. Kalli var nýkominn þangað frá Íslandi þegar hann var búinn að bjarga nýfæddum tvíburabræðum frá því að vera bornir út eins og það er kallað hjá þjóðflokkum á svæðinu. Tvíburarnir áttu að deyja til að aflétta bölvun sem talin var fylgja þeim. Þeir búa í dag á öruggu heimili í SOS barnaþorpi í Hawassa í Eþíópíu.
Átakanlega frásögn Kalla má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.
Töldu bölvun hvíla á tvíburunum
Móðir tvíburanna dó við fæðingu og faðirinn hafði verið myrtur nokkrum mánuðum áður. Þegar drengirnir fæddust var annar þeirra tileygður og þá var fjölskyldan endanlega sannfærð um að bölvun fylgdi strákunum.
Þá er aðferðin sú að börnin eru tekin og þau borin út á sléttuna þar sem þau eru skilin eftir og hýenurnar sjá um restina. Eða þá að þeim er fleygt í ána þar sem þau drukkna eða verða krókódílum að bráð. Kalli Gísla
Amma drengjanna bað Kalla um að bjarga þeim
Kalli er fæddur og uppalinn í Eþíópíu fyrstu 9 ár ævi sinnar og fluttist þangað aftur síðar ásamt eiginkonu sinni. Þau bjuggu í fjögur ár í Omorate þar sem þau sinntu kirkjustarfi og lestrarkennslu til ársins 2011 þegar þau fluttu aftur heim til Íslands. Síðan hefur Kalli farið út einu sinni á ári til að fylgja þeim verkefnum eftir. Það var í slíkri ferð haustið 2012 sem amma tvíburanna nýfæddu kom að máli við Kalla og bað hann um að bjarga þeim.
„Þegar við komum sagði amma þeirra að annað hvort tæki ég strákana eða að þeir yrðu bornir út. Hvað á maður að gera? Við sóttum strákana því ég gat einhvern veginn ekki hugsað mér að láta strákana búa í þessari óvissu ef amma þeirra skyldi taka upp á að gera eitthvað.“
Amman myrt
Amma tvíburanna fór með Kalla til að hugsa um tvíburana meðan reynt var að koma þeim einhversstaðar fyrir. Hún gafst á endanum upp og lét sig hverfa en var myrt nóttina eftir að hún hvarf. „Þetta undirstrikaði fyrir þjóðflokkinn að bölvun hvíldi á drengjunum og í framhaldinu tókum við eftir því að það komu mjög fáir inn á lóðina til okkar. Fólk skildi ekki hvernig við þorðum að hafa þessa drengi hjá okkur. Ég sagði fólki bara að ég trúði ekki á þessa bölvun.“
Aðstoð frá SOS á Íslandi
Kalli kom strákunum tímabundið fyrir á heimavist stúlkna sem var á lóðinni hjá honum á meðan hann reyndi að finna framtíðarheimili fyrir þá. Þær tilraunir skiluðu engu en Facebook-færsla hans með ákalli um hjálp vakti athygli framkvæmdastjóra SOS Barnaþorpanna á Íslandi, Ragnars Schram. Hann hafði samband við SOS í Eþíópíu þar sem ákveðið var að koma tvíburunum í fóstur í SOS barnaþorpinu í Hawassa í Eþíópíu. Þar hafa þeir dafnað vel og búa ennþá í dag og eiga t.d. íslenska styrktarforeldra.
SOS mamman þakklát Kalla
„Kalli var svo hjálplegur og umhyggjusamur. Ég á engin orð til að lýsa þessu góðverki hans. Hann hafði raunverulegar áhyggjur af strákunum. Hann fylgdi málinu alla leið og hjálpaði okkur mikið," segir SOS mamma Ísaks og Samúels í SOS barnaþorpinu í Hawassa.
Heimsækir tvíburana á hverju ári
Kalli gaf tvíburunum nöfnin Ísak og Samúel og fer hann áfram einu sinni á ári til Eþíópíu og heimsækir strákana í hvert sinn. Þeir eru meðvitaðir um að Kalli bjargaði lífi þeirra og taka honum fagnandi í hvert skipti sem hann heimsækir þá.
Það gekk hins vegar ekki þrautalaust fyrir Kalla að koma strákunum í umsjá SOS barnaþorpsins. Kalli segir mikla ómenningu ríkja í Suður Eþíópíu þar sem ólíkar hefðir og ólík trúarbrögð ríkja hjá þeim 18 áttbálkum sem þar eru.
Orðnir 10 ára
Þessi frásögn Kalla var fyrst birt hér á sos.is í febrúar 2019 eftir að undirritaður hafði hitt tvíburana í heimsókn til barnaþorpsins í Hawassa. Myndin efst í þessari frásögn er einmitt tekin í þeirri heimsókn en þá voru Ísak og Samúel aðeins 6 ára.
Þann 6. október 2022 fögnuðu þeir 10 ára afmæli sínu og fékk Kalli senda meðfylgjandi mynd þeim sem hann deilir með okkur. Hann segir allt mjög gott að frétta af tvíburunum sem eru í 4. bekk (5. bekk skv. íslensku bekkjakerfi) og gengur vel. Vegna heimsfaraldursins eru nú komin fjögur ár síðan Kalli náði síðast að heimsækja Ísak og Samúel og segist hann farinn að sakna þeirra mikið.
Kalli sagði sögu sína einnig í viðtali við Ísland í dag á Stöð 2 þann 11. mars árið 2019.
Viðtal: Hans Steinar Bjarnason
Myndir: Karl Gíslason og Hans Steinar
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.