Ungabarni bjargað úr hræðilegum aðstæðum
Laurita litla var yfirgefin eftir fæðingu í borginni Cochabamba í Bólivíu fyrir 18 árum. Strax, aðeins nokkurra klukkustunda gömul, átti hún svo að segja engan að. Eini ættinginn var frænka sem gat ekki séð um Lauritu og skildi hún nýfætt barnið eftir inni í skúr á skítugri dýnu. Eina næringin sem hún fékk fyrstu mánuðina var mjólk, te eða vatn með sykri.
Var brugðið við að sjá barnið
Frænkan gerði sér sem betur fer grein fyrir því að hún gat ekki sinnt grunnþörfum barnsins enda eru vannæring og skortur á hreinlæti ekki góð samsetning fyrir ungabörn svo hún hafði samband við SOS Barnaþorpin. Þegar starfsfólk SOS kom til að sækja Lauritu var því brugðið við að sjá litla barnið liggja eitt og yfirgefið í gömlum skúr á skítugri dýnu. Lykt af myglu og hlandi var af veggjunum.
„Við sóttum hana um miðjan dag þangað sem hún bjó. Ég varð mjög sorgmædd þegar ég sá hana því hún var svo lítil og skorti augljóslega umönnun," segir Mercedes, SOS móðir Lauritu sem sótti hana í skúrinn þennan umrædda dag fyrir 18 árum. Myndatökumaður var með í för og var eftirfarandi myndband birt hjá SOS Barnaþorpunum í Danmörku af því þegar Laurita var sótt.
18 ára í dag að læra matargerð
Laurita litla var þriggja mánaða gömul þegar hún kom í barnaþorpið og varð hún fljótt miðdepill fjölskyldunnar. Loksins fékk hún alla þá umönnun og ást sem hvert barn þarfnast. Því miður eru allt of mörg börn sem fá ekki slík tækifæri. Laurita fékk ástríkt uppeldi í SOS barnaþorpinu og dafnaði vel. Hún er 18 ára í dag og er búin með grunnnám. Hún er núna að læra matargerð og stefnir á að opna veitingastað í framtíðinni.
Lauritu var bjargað en því miður eru í dag allt of mörg börn um heim allan yfirgefin svo þau þurfa að hugsa um sig sjálf. Án móður, án föður. Án ástar og umhyggju. En sem betur fer getum við saman gert eitthvað til að hjálpa börnum eins og Lauritu.
SOS-styrktarforeldri hjálpar barni sem hefur engan fullorðinn til að hugsa um það.
39 Íslendingar eru SOS-foreldrar barna í barnaþorpunum tveimur í Cochabamba.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.