Vann silfur á lánshjóli
David er hæfileikaríkur, fjórtán ára drengur sem lætur fátt stoppa sig. Þá er hann einn efnilegasti íþróttamaðurinn í SOS Barnaþorpinu í Ivohitra í Magadaskar.
Í byrjun árs 2014 bauð þjálfari íþróttaklúbbsins í barnaþorpinu unglingunum að taka þátt í þríþrautarmóti. David er ávallt tilbúinn að taka áskorunum og hann var því ekki lengi að svara játandi. David vissi að hann myndi standa sig vel í hlaupunum og sundinu en hann hafði ekki hjólað mikið. Á keppnisdag fékk hann lánað hjól, gerði sitt besta og landaði silfrinu!
„Ef ég hefði vitað hvernig átti að skipta um gíra og festa hjálminn betur hefði ég örugglega unnið gullið,“ segir David sjálfsöruggur. „Ef ég hefði átt mitt eigið hjól hefði ég líka æft meira fyrir mótið,“ bætir hann við og brosir. Eftir þetta mót ákvað David að leggja þríþrautina fyrir sig og var ekki lengi að safna sér fyrir hjóli. Hann keppir nú reglulega á landsmótum.
SOS móðir David heitir Maman Elise er afar stolt af syni sínum sem fékk nýtt heimili í SOS Barnaþorpinu þegar hann var þriggja ára. Líffræðileg móðir hans lést en David, ásamt þremur eldri systkinum, sat bjargarlaus eftir. Systkinin voru ein á báti og bjuggu á götunni í nokkrar vikur áður en SOS Barnaþorpin gáfu þeim nýtt heimili. Þau ólust öll upp hjá Maman Elise en eldri systkini David eru nú orðin sjálfstæð og flutt að heiman. Þau koma þó reglulega í þorpið til að heimsækja fjölskyldu sína.
Um er að ræða afar samheldna fjölskyldu og styðja allir meðlimir hennar við bakið á David. „Hann borðar hollan mat til að ná betri árangri og leyfir sér sjaldan eitthvað óhollt,“ segir eldri SOS systir hans, Ando. Hún segir mjög skemmtilegt að fylgjast með afrekum bróður síns. „Hann stendur sig æðislega vel. Hann hefur greinilega mjög gaman að þessu og dagarnir fyrir mót eru oft skrautlegir. Þá talar hann svo mikið og er gríðarlega spenntur.“
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.