Var nauðgað þegar hún hjúkraði dauðvona móður sinni
Fjölskylduefling SOS Barnaþorpanna er það verkefni sem vex hraðast hjá samtökunum í dag. Verkefnið gengur út á að fátækar barnafjölskyldur fá aðstoð frá SOS Barnaþorpunum til sjálfshjálpar, það er að sjá fyrir börnum sínum og mæta grunnþörfum þeirra. Nú hefur slíkt verkefni verið sett á laggirnar í Tulu Moye í nágrenni Iteya í Eþíópíu.
SOS Barnaþorpin á Íslandi fjármögnuðu fjögurra ára fjölskyldueflingu í Bissá, höfuðborg Gíneu-Bissá, sem lauk í fyrra með góðum árangri og í kjölfarið hófst tímabundið verkefni í Venesúela og Eþíópíu sem nýttist um 900 fjölskyldum.
Í janúar sl. hófst fjölskyldueflingarverkefni í Tulu Moye sem SOS Barnaþorpin á Íslandi styrkja. Skjólstæðingar þar veittu á dögunum viðtöl sem tekin voru fyrir SOS Barnaþorpin á Íslandi og þau lýsa erfiðum og ógnvænlegum aðstæðum.
Fá stundum ekki að borða
Hin 18 ára Mena býr með þremur systkinum sínum og barni sem kom undir þegar henni var nauðgað. „Mamma dó í fyrra og eldri bróðir minn brauðfæðir fjölskylduna með verkavinnu. Við erum fimm í fjölskyldunni, ég sé um húsverkin og el upp systkini mín og barn. Ég hafði áform um að stunda vinnu og koma systkinum mínum til mennta. En mér var nauðgað þegar ég var að hjúkra mömmu meðan hún var veik og núna þarf ég líka að hugsa um barnið.“ segir Mena.
Eldri bróðir hennar, Tee, tekur undir með að systkinin hafi gengið gegnum erfiða tíma. „Pabbi yfirgaf okkur eftir að yngri Mena átti barnið. Þetta gerðist á sama tíma og mamma dó svo aðstæður okkar versnuðu hratt. Það koma dagar þegar við eigum ekkert að borða. Eitt systkina okkar er 11 ára, annað 7 ára, ungabarnið er eins árs og Mena 18 ára. Þau treysta öll á mig.“ segir Tee.
Vinnur við kamarhreinsanir
Ástandið er líka erfitt hjá annarri fjölskyldu í Tulu Moye sem veitti okkur viðtal. Tigist er móðir þriggja barna sem líða fyrir fátækt foreldra sinna. „Eiginmaður minn er verkamaður og sér fyrir fjölskyldunni að stærstum hluta með því að hreinsa kamra. Við eru alveg eignalaus, ég er atvinnulaus og við náum ekki endum saman. Elsta barnið okkar er 16 ára og næst elsta 12 ára. Þau eiga í basli og eru alltaf að lenda í vandræðum í skólanum vegna þess að þau eiga ekki skólabúning og ganga um í rifnum gömlum lörfum.“ segir Tigist.
SOS fjölskylduvinur
SOS fjölskylduvinur
SOS-fjölskylduvinir styrkja fjölskyldueflingu SOS. Sem SOS-fjölskylduvinur kemurðu í veg fyrir að börn verði vanrækt og yfirgefin. Í fjölskyldueflingu SOS tökum við fyrstu skrefin með fjölskyldum út úr sárafátækt svo þær getið staðið á eigin fótum og veitt börnunum bjarta framtíð. Þú ákveður styrktarupphæðina og færð reglulega uppýsingapóst um verkefnin sem við fjármögnum.