Viðtal við SOS móður í Eþíópíu
Mulu Geletu hefur verið SOS móðir í 21 ár í SOS Barnaþorpinu í Addis Ababa í Eþíópíu. Við fengum hana til að svara nokkrum spurningum um fjölskyldulífið.
Nafn:
Mulu Geletu
Aldur:
50 ára
Hversu lengi hefur þú verið SOS móðir:
Það eru liðin 21 ár síðan ég gerðist SOS móðir.
Við hvað starfaðir þú áður en þú komst til SOS?
Ég starfaði sem aðstoðarmaður rafvirkja hjá stóru eþíópísku rafvörufyrirtæki.
Hvers vegna ákvaðst þú að gerast SOS móðir?
Ég elska börn og það var helsta ástæðan fyrir því að ég vildi verða SOS móðir. Ég nýt þess að eyða tíma með börnum og það að geta hugsað um þau og séð fyrir þeim gerir mig hamingjusama.
Hversu miklu þjálfun fékkstu áður en þú gerðist SOS móðir?
Ég fékk mikla fræðslu um þroska barna og ungmenna. Þá fékk ég þjálfun í uppeldisfræðum, reiðistjórnun, jákvæðum uppeldisaðferðum, sálfræði og fleira sem ég man ekki í augnablikinu.
Finnst þér mikilvægt að hafa fengið þjálfun?
Já mér þykir það mjög mikilvægt og þjálfunin hefur skilað sér í góðum uppeldisaðferðum og jákvæðu andrúmslofti inn á heimilinu. Ég lærði betri aðferðir til að takast á við erfiðleika og óvæntar uppákomur í tengslum við börnin.
Hversu mörg börn áttu?
Ég á 26 börn, 15 stráka og 11 stelpur. En í dag búa níu börn á heimilinu, hin eru flutt út og orðin sjálfstæð þó þau komi mjög reglulega í heimsókn.
Hvað er það besta við að vera SOS móðir?
Ástin! Ég fæ að vera móðir barna sem hafa misst foreldra sína. Það gefur mér virkilega mikið að fá að vera til staðar fyrir börn sem eru í þörf fyrir ást og umhyggju. Ég er lifandi dæmi um það að móðir þarf ekki alltaf að hafa fætt börnin sín. Ég tengist þeim böndum eftir fæðingu sem eru órjúfanleg og ég elska þau skilyrðislaust.
Hvernig er venjulegur dagur hjá ykkur fjölskyldunni?
Ég vakna fyrst af öllum, undirbý morgunmatinn og útbý nesti fyrir börnin til að taka með sér í skóla. Þegar börnin vakna hjálpa ég þeim minnstu að klæða sig, bursta tennur og greiða hárið. Eldri börnin þurfa minni hjálp við að taka sig til. Þegar allir eru tilbúnir fáum við okkur morgunmat áður en eldri börnin fara í skólann. Ég labba svo með yngri börnunum í leikskólann sem er í þorpinu.
Þegar ég kem aftur heim þarf ég að ganga frá, taka til, þvo þvott og undirbúa kvöldmat. Börnin koma heim úr skóla og leikskóla á milli klukkan þrjú og fimm. Eftir að þau hafa skipt um föt fara þau annað hvort út að leika, á íþróttaæfingar eða sinna heimalærdóminum. Mér finnst gaman að hjálpa þeim við það en þau þurfa mis mikla hjálp við námið. Allir eru þó komnir inn um klukkan sex þegar við borðum kvöldmat og á kvöldin eigum við yfirleitt góðar stundir. Þá er mikið spjallað. Við horfum líka oft á bíómynd saman og yfirleitt veljum við einhverja góða gamanmynd.
Hvað gerið þið um helgar?
Yfirleitt sofum við lengur en á virkum dögum. Á laugardögum sinnum við heimilisverkum í hópum. Eldri börnin eiga sín verkefni, til dæmis að þrífa baðherbergið eða taka til í garðinum á meðan yngri börnin fá að raða skóm eða dusta rykið. Við erum mikið úti um helgar, förum á markað eða annað skemmtilegt.
Hverjar eru hamingjusömustu stundir fjölskyldunnar í gegnum árin?
Þær hafa verið margar. Til dæmis þegar elsta dóttir mín gifti sig. Núna er hún ófrísk og ég hlakka mikið til að verða amma. Það er líka alltaf mjög ánægjulegt þegar börnin útskrifast, hvort sem það er úr grunnskóla, framhaldsskóla eða háskóla.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.