„Vissum ekki alveg hvað var í gangi“
Matthew og eldri bróðir hans komu í SOS Barnaþorpið í Beau Bassin í Máritíus þegar þeir voru þriggja og sex ára en Matthew er átján ára í dag. Líffræðilegir foreldrar bræðranna gátu ekki séð fyrir þeim en drengirnir bjuggu einir á götunni í nokkrar vikur þar til maður einn fann þá og fór með þá í SOS Barnaþorpið. Matthew segir viðbrigðin hafa verið mikil þegar þeir komu fyrst í þorpið. „Ég man að við vorum mjög hræddir. Við vorum alltaf saman og leiddumst um allt. Fljótlega fórum við þó að finna fyrir öryggi.“
Skiljanlega tók það bræðurna dágóðan tíma að venjast lífinu í þorpinu. „Við vorum svolítið lengi að fatta að þarna væri fólk sem þætti vænt um okkur og vildi okkur vel. Við vorum ekki vanir góðu uppeldi og því vissum við ekki alveg hvað væri í gangi,“ segir Matthew og hlær. „SOS mamma okkar var svo góð og veitti okkur athygli og þá eignuðust við mörg systkini sem voru alltaf til í að leika.“
Matthew byrjaði fljótlega í SOS leikskólanum og útskrifaðist þaðan þremur árum síðar en þá hóf hann nám í SOS grunnskólanum.
„Ég átti í örlitlum námserfiðleikum fyrstu árin í grunnskóla og þurfti að leggja hart að mér. Ég fékk þó mikla aðstoð hjá fjölskyldu minni og kennurum sem ég er afar þakklátur fyrir í dag,“ segir Matthew.
Matthew kláraði grunnskólann með glans og er nú í framhaldsnámi. Þá er eldri bróðir hans að læra ferðamálafræði í háskóla. „Við lítum sko björtum augum á framtíðina,“ segir hann og brosir.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.