Yfirgefinn í stríðinu
Þegar hinn fimm ára gamli Jamil* hafði beðið eftir móður sinni á fyrirfram ákveðnum stað í meira en tíu mínútur fór hann að hafa áhyggjur. Mikill fjöldi fólks gekk hjá og Jamil rýndi í fjöldann, leitandi að einu andliti, andliti mömmu sinnar.
Áfram leið tíminn og Jamil fór að velta því fyrir sér hvort hann ætti að fara af stað og leita að mömmu sinni. En hann óttaðist að hún kæmi á meðan og héldi þá að hann væri týndur, enda hafði hún sagt honum að bíða þarna á þessum stað í smá stund því hún myndi koma fljótt aftur.
Eftir þriggja klukkustunda bið fór Jamil að gráta. Að honum læddist sú hugsun að móðir hans kæmi ekki aftur. Því miður var það rétt hjá honum.
Verslunareigandi einn fór með Jamil á næstu lögreglustöð. Lögreglan reyndi hvað hún gat til að hafa uppi á móður hans. Allt benti til þess að móðir hans hefði skilið son sinn eftir viljandi.
Jamil sat þolinmóður á lögreglustöðinni. Lögreglumennirnir spurðu hann fjölmargra spurninga og hann rifjaði m.a. upp fyrir þá þá hræðilegu reynslu þegar faðir hans var skotinn til bana á heimili fjölskyldunnar. Skotið kom utan frá og í gegnum rúðu. Í kjölfarið flúðu Jamil og móðir hans heimilið.
Lögreglunni tókst ekki að hafa uppi á neinum ættingjum Jamils og fór með hann á móttökumiðstöð SOS Barnaþorpanna fyrir týnd börn þar sem hann fékk að dvelja á meðan allra leiða var leitað til að finna ættingja hans. Nú, um tveimur árum síðar hefur enn ekki tekist að hafa uppi á móður Jamils eða öðrum ættingjum. Því var ákveðið að hann skyldi fá varanlegt heimili, SOS-móður og fjölskyldu í barnaþorpi.
Jamil man vel eftir þriðjudeginum 7. nóvember 2017. „Ég man að Lama (SOS-móðir hans) stóð við hliðið með forstöðumanninum og beið eftir mér. Hún brosti til mín, tók í höndina á mér og leiddi mig inn í húsið sem nú var nýja heimilið mitt. Þar kynnti hún mig fyrir nýju systkinum mínum. Þau voru öll svo glöð og töluðu mikið en ég var þögull og feiminn,“ segir Jamil þegar hann rifjar upp fyrsta daginn í SOS Barnaþorpinu.
Hann var þó fljótur að átta sig á því að í barnaþorpinu var leikvöllur. Þaðan bárust hljóð sem gáfu til kynna að börn væru að leik og skemmtu sér vel. SOS-móðir hans spurði hann hvort hann vildi skoða leikvölinn og það vildi hann svo sannarlega. Jamil var ekki lengi að komast inn í leikinn.
Fljótlega eftir að Jamil flutti í barnaþorpið fór hann að sækja skóla. Eftir skóla fær hann heimsókn frá einkakennara sem hjálpar honum að yfirstíga námserfiðleika. Þá hittir Jamil sálfræðing bæði í hóp- og einkatímum þar sem börnin fá hjálp við að vinna úr erfiðri lífsreynslu úr stríðinu.
Jamil á tvo mjög góða vini í SOS Barnaþorpinu og hefur ítrekað sagt þeim frá framtíðarplönum sínum. Hann ætlar nefnilega að verða flugmaður.
Við skulum ekki afskrifa þann draum.
*Ekki hans rétta nafn.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.