140 milljónir króna til Ekvador
Alþjóðasamtök SOS Barnaþorpanna hafa kallað eftir einni milljón evra, eða 140 milljónum króna, vegna neyðaraðstoðar samtakanna í kjölfar jarðskjálftans í Ekvador. SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa ákveðið að leggja að minnsta kosti tvær milljónir króna til aðstoðarinnar.
SOS Barnaþorpin hafa starfað í Ekvador síðan árið 1963 en í dag búa um 500 börn í sex SOS Barnaþorpum þar í landi. Eitt þorpanna er staðsett í Esmeraldas þar sem upptök skjálftans voru. Öll SOS börn ásamt starfsfólki sluppu óhult og engar alvarlegar skemmdir urðu á byggingum í þorpunum. Ekki hefur enn náðst í alla skjólstæðinga Fjölskyldueflingar, fátækar barnafjölskyldur sem fá stuðning til sjálfshjálpar hjá SOS.
SOS Barnaþorpin munu leggja áherslu á aðstoð við börn sem hafa misst eða orðið viðskila foreldra sína í hamförunum. Þá hafa samtökin nú þegar hafið vatns- og matvælaaðstoð sem og úthlutun á öðrum nauðsynjum. Neyðarskýli verða einnig opnuð þar sem fórnarlömb skjálftans fá viðeigandi aðstoð og komast í netsamband til að hafa samband við ættingja. Samtökin munu einnig opna barnvæn svæði þar sem börn geta fengið aðstoð, leikið sér og hitt önnur börn.
Að minnsta kosti 246 létust og 2500 eru slasaðir eftir jarðskjálftann á laugardagskvöld en óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka. Um er að ræða stærsta skjálfta í landinu í 40 ár.
Hægt er að styðja við neyðaraðstoð SOS Barnaþorpanna í Ekvador með því að hringja í síma 907-1002 (2.000 krónur). Einnig er hægt að millifæra framlag á reikning 334-26-52075, kt. 500289-2529 með skýringunni: Ekvador.
Nýlegar fréttir

Tæland: Börn og starfsfólk óhult
Öll börn og starfsfólk SOS Barnaþorpanna í Tælandi eru heil á húfi eftir stóra jarðskjálftann sem reið yfir landið og nágrannalönd í gær.

Utanríkisráðherra gerði rammasamning við SOS
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra skrifaði á mánudaginn undir rammasamning við SOS Barnaþorpin til fjögurra ára. Framlög ráðuneytisins til SOS á þessu tímabili nema samtals 689 milljónu...