18 staðir Gleðipinna og 18 styrktarbörn
Starfsfólk veitinga- og afþreyingarfélagsins Gleðipinna hefur ákveðið að styðja við starf SOS Barnaþorpanna með því að gerast SOS-foreldrar 18 barna í SOS barnaþorpum víðsvegar um heiminn. Það þýðir að hver staður sem tilheyrir Gleðipinnum styrkir eitt barn í SOS barnaþorpi. Rúrik Gíslason, einn af velgjörðasendiherrum SOS Barnaþorpanna á Íslandi, afhenti Guðrúnu Hilmarsdóttur, Gunnu á Stælnum, upplýsingar styrktarbarn American Style í Skipholti.
400 starfsmenn af um 20 þjóðernum
„Gleðipinnafjölskyldan okkar er stór og fjölbreytt, hjá okkur starfa um 400 starfsmenn af um 20 þjóðernum. Það er því afar viðeigandi að taka þátt í starfi SOS Barnaþorpanna með þessum hætti, enda starfa þau í 137 löndum víðs vegar um heiminn. Það er táknrænt að Gunna á Stælnum taki á móti fyrsta styrktarbarninu, en hún er elsti starfsmaður Gleðipinna, hefur stýrt American Style í Skipholti í 25 ár og alið upp fjöldann allan af íslenskum fyrirmyndarbörnum," segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna. Jóhannes fór einmitt nýverið ásamt Rúrik Gíslasyni mági sínum til Afríku að kynna sér starf SOS Barnaþorpanna og heimsóttu þeir styrktarbörn sín í Malaví. Afraksturinn má sjá í þættinum Rúrik og Jói í Malaví á Sjónvarpi Símans.
Muni veita starfsfólki Gleðipinna mikla ánægju
„SOS mömmur hafa í 73 ár verið máttarstólpinn í starfsemi SOS barnaþorpanna og að Gunna á Stælnum hafi fengið fyrstu upplýsingamöppuna var sérstaklega ánægjulegt, einmitt svona nálægt mæðradeginum. Þessi stuðningur Gleðipinna mun ekki aðeins hafa jákvæð áhrif á líf þessarra 18 barna heldur einnig keðjuverkandi áhrif á komandi kynslóðir, það er, afkomendur þeirra til framtíðar. Við erum sannfærð um að það muni veita starfsfólki Gleðipinna mikla ánægju að fylgjast með uppvexti styrktarbarna sinna um ókomin ár,” segir Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúi SOS Barnaþorpanna á Íslandi.
Hvatning til starfsfólks og viðskiptavina
Með þessum stuðningi komast Gleðipinnar í hóp svokallaðra Velgjörðafyrirtækja SOS og vilja þannig hvetja viðskiptavini sína sem og starfsmenn til þess að gerast SOS-foreldrar en það er gert með afar einföldum hætti hér á heimasíðu SOS. Á tíunda þúsund Íslendinga eru SOS-foreldrar sem framfleyta barni í SOS barnaþorpi með mánaðarlegu framlagi og fylgjast með uppvexti barnsins í gegnum bréf og myndir.
Gleðipinnastaðirnir eru:
American Style, 4 staðir
Aktu Taktu, 4 staðir
Saffran, 2 staðir
Hamborgarafabrikkan, 2 staðir
Hamborgarafabrikkan Akureyri, 1 staður
Pítan, 1 staður
Blackbox, 1 staður
Blackbox Akureyri, 1 staður
Keiluhöllin og Shake&Pizza 1 staður
Rush Iceland, 1 staður
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.