800 einsömul flóttabörn í SOS Barnaþorpum
SOS Barnaþorpin hafa á síðustu mánuðum tekið að sér tæplega 800 einsömul flóttabörn í Evrópu og víðar en meirihluti þeirra er frá Sýrlandi. Flóttabörn sem koma ein síns liðs eru í mikilli hættu á að lenda í höndum ofbeldismanna sem stunda barnavændi, eiturlyfjasmygl og mansal. Því er gríðarlega mikilvægt að aðstoða þau börn sem fyrst eftir komuna til Evrópu og hafa SOS Barnaþorpin því lagt sérstaka áherslu á aðstoð við flóttabörn án foreldrafylgdar. Samtökin eru staðsett víðsvegar um heiminn og eru því í góðri stöðu til að aðstoða flóttabörn í neyð.
Í Líbanon eru 105 einsömul flóttabörn í umsjá SOS Barnaþorpanna en öll eru þau sýrlensk. Starfsfólk samtakanna reynir að hafa uppi á fjölskyldum barnanna en ef það tekst ekki eru fundin önnur úrræði, til að mynda framtíðarheimili í SOS Barnaþorpi.
47 einsömul flóttabörn eru í umsjá SOS Barnaþorpanna á Ítalíu og tvö í Eistlandi. Þá eru 30 einsömul flóttabörn í umsjá SOS Barnaþorpanna í Finnlandi og búa samtökin sig undir að taka við mun fleiri á næsta ári en áætlað er að um 900 einsömul flóttabörn komi til Finnlands árið 2016.
Í Þýskalandi eru 300 einsömul flóttabörn í umsjá SOS Barnaþorpanna og yfir 100 í Austurríki. Á báðum stöðum eru samtökin tilbúin að taka við fleiri flóttabörnum á nýju ári.
Árið 2016 munu SOS Barnaþorpin í Belgíu, Grikklandi, Noregi, Spáni og Jórdaníu einnig taka við hundruðum flóttabarna sem koma án foreldrafylgdar en líkt og í hinum löndunum býr fjöldi munaðarlausra og yfirgefinna barna þar fyrir í SOS Barnaþorpum.
Þá eru 205 börn í tímabundinni umsjá SOS Barnaþorpanna í Sýrlandi en þau hafa orðið viðskila við foreldra sína innan landamæranna eða misst þá. Börnin búa á tveimur heimilum í Damaskus en það þriðja opnar í Aleppo eftir áramót. Þar fyrir utan búa yfir 200 börn í SOS Barnaþorpum í landinu.
Nýlegar fréttir

Tæland: Börn og starfsfólk óhult
Öll börn og starfsfólk SOS Barnaþorpanna í Tælandi eru heil á húfi eftir stóra jarðskjálftann sem reið yfir landið og nágrannalönd í gær.

Utanríkisráðherra gerði rammasamning við SOS
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra skrifaði á mánudaginn undir rammasamning við SOS Barnaþorpin til fjögurra ára. Framlög ráðuneytisins til SOS á þessu tímabili nema samtals 689 milljónu...